Fjölskyldusagan brotin til mergjar

Stefán segir vitneskju um sögu forfeðranna og -mæðranna dýrmæta þótt …
Stefán segir vitneskju um sögu forfeðranna og -mæðranna dýrmæta þótt ekki verði hún metin til fjár. mbl.is/Golli

Stefán Halldórsson hyggst ekki kenna eftir bókinni á námskeiðinu Ættfræðigrúsk – fjölskyldusaga þín á netinu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í lok mánaðarins. Þess í stað miðlar hann af reynslu sinni við heimildaleit á netinu og hjálpar þátttakendum að fylla upp í eyður í fjölskyldusögu sinni aldir aftur í tímann.

Íslandssaga 19. aldar sem Stefán Halldórsson kenndi samkvæmt bókinni í gagnfræðaskóla fyrir margt löngu fjallaði mest um sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, framfarir í atvinnumálum, Fjölnismenn og önnur skáld og skörunga. Hörð lífsbarátta forfeðra og -mæðra þorra Íslendinga vegna hungurs, hallæris og náttúruhamfara segir hann að hafi fengið öllu minna vægi, þótt sú saga sé ekki síður merkileg.

Stefán ætlar því ekki að kenna eftir bókinni á námskeiðinu Ættfræðigrúsk – fjölskyldusaga þín á netinu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í lok mánaðarins. Né heldur að rekja saman ættir eða leita í fornum skjölum, kirkjubókum eða öðrum frumheimildum sem enn eru ekki aðgengileg á netinu.

Fimm kynslóðir. Mynd frá 1999, sem tekin var á eitt …
Fimm kynslóðir. Mynd frá 1999, sem tekin var á eitt hundrað ára afmæli ömmu Stefáns, Ragnheiðar Böðvarsdóttur. Auk þeirra eru á myndinni móðir Stefáns, Sigrún Stefánsdóttir, dóttir hans, Ásta Björg, og dóttursonurinn, Óliver Bergsson Bernburg, á fyrsta ári.


„Markmiðið er að kenna þátttakendum að nýta sér gagnagrunna og skjalasöfn á netinu til að afla sér upplýsinga um sögu fjölskyldu sinnar allt að 200 ár aftur í tímann. Íslendingabók og ættartölur á netinu segja ekki alla söguna. Ítarlegri fróðleikur um aðstæður, umhverfi, daglegt líf og örlög forfeðra okkar og -mæðra er þar víða aðgengilegur, fólk verður bara að vita hvar það á að bera niður.“

Og þar er Stefán á heimavelli, þaulvanur heimildavinnu af ýmsu tagi, og ætlar að miðla af þekkingu sinni. Hann er menntaður félagsfræðingur og rekstrarhagfræðingur og starfaði lengi á fjármálamarkaðnum, þar sem hann nýtti sér tölvutæknina í upplýsingaöflun og við rannsóknir og greiningar. Sögukennslan í gaggó var eitt af nokkrum störfum hans í gamla daga og þá var hann líka blaðamaður um margra ára skeið.

Veit eitthvað um margt

„Ég nálgast fjölskyldusöguna og kennsluna á námskeiðinu svolítið eins og blaðamaður, grúska með aðferðum blaðamannsins, leita svara við spurningum og reyni að koma efninu frá mér á auðskiljanlegan hátt. Trúlega á sama við um mig og oft er sagt um blaðamenn, að þeir séu ekki fræðingar í einu né neinu, en viti eitthvað um margt.“

Stefán er kominn á eftirlaunaaldur og starfar sjálfstætt sem ráðgjafi og verkefnastjóri. Hann kveðst hafa meira svigrúm núna en þegar hann var í föstu starfi til að sinna áhugamálum sínum og gerir því skóna að sama sé uppi á teningnum hjá flestum þátttakendum á námskeiðinu. „Mín reynsla er sú að fólk fái með aldrinum aukinn áhuga á ættum sínum, uppruna og fjölskyldusögu. Ungt fólk er meira með hugann í nútímanum en fortíðinni,“ segir hann.

Fyrir tveimur árum gaf Stefán út bókina Öll mín bestu ár, um skemmtanalíf ungs fólks árin 1966-1979. Bókin er prýdd fjölda mynda eftir Kristin heitinn Benediktsson ljósmyndara og krafðist töluverðrar heimildavinnu af hálfu Stefáns.

Manntalið 1703
Manntalið 1703


Samhliða var hann farinn að grúska í fjölskyldusögu sinni og konu sinnar, Lilju Jónasdóttur. „Ég fékk sérstaklega augastað á lífi langamma okkar og -afa, samtals sextán áa, því hvort okkar á – eins og allir – fjórar langömmur og fjóra langafa. Flest voru fædd upp úr miðri 19. öld,“ segir Stefán og man nákvæmlega hvenær áhugi hans vaknaði á að kynna sér lífshlaup þeirra.

Enginn dans á rósum

„Það var 29. júní 2012, kvöldið áður en forsetakosningarnar voru haldnar og Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn forseti í síðasta sinn,“ upplýsir hann og heldur áfram: „Við hjónin vorum á Hólmavík á leið í Árneshrepp þar sem við ætluðum að skoða okkur um. Þá rifjaðist upp fyrir mér að amma Lilju fæddist á Gjögri svo við ákváðum að finna leiði ættingja hennar í kirkjugarðinum. Ég kíkti því í Íslendingabók og sá að þegar langamma konu minnar lést aðeins 27 ára frá fjórum börnum var hún sú 11. af 14 systkinum til að deyja. Flest systkini hennar dóu á fyrsta ári. Í framhaldinu fór ég að skoða aðrar langömmur okkar og -afa og sá að þetta var algengt mynstur lengst af 19. öldinni. Barnadauði var mikill og erfið lífskjör leiddu fólk til dauða langt um aldur fram.“

Stefáni var vitaskuld kunnugt um að líf forfeðranna og -mæðranna margra hverra var enginn dans á rósum og býsna ólíkt lífi niðjanna; blómabarnanna um 150 árum síðar, sem hann var um þetta leyti að færa til bókar. Samt kom honum á óvart hversu harða lífsbaráttu fjölskyldur þeirra hjóna höfðu háð og varð æ forvitnari um hvernig þeim tókst að fóta sig og skapa sér lífsskilyrði.

„Ég gæti sagt margar hörmungarsögurnar, þó ekki væri nema bara þær sem ég hef lesið á netinu,“ segir hann en lætur þess getið að þau hjónin séu býsna fjarskyld, í áttunda lið nánar tiltekið, og að í ættum beggja séu líka prestar, hreppstjórar og sjálfseignarbændur.

Annars værum við ekki hér

„Ég þekkti sögu langafa míns í móðurætt, Böðvars Magnússonar, bónda og sveitarhöfðingja á Laugarvatni, því ævisaga hans er til. Ólíkt var lífshlaup föðurafa míns, sem lengi var leiguliði á Austurlandi. Hann missti föður sinn á barnsaldri, heimilið leystist upp og hann varð tökubarn. Síðar gerðist hann vinnumaður á bæ þar sem hann kynntist vinnukonu og kvæntist henni. Þau bjuggu yfir 20 ár á leigujörðum þar til honum, hátt á fimmtugsaldri, tókst að eignast eigin jörð. Ég býst við að á námskeiðinu komist flestir að raun um að þeir séu meðal annars komnir af fátækum leiguliðum eins og föðurafi minn var og finni hliðstæðar sögur af sjálfstæðu fólki, sem tókst á við sára fátækt, barnadauða, vistarbönd, farsóttir og hallæri. Og hafði betur. Okkar fólki tókst það, annars værum við ekki hér. Reynsla áanna hefur ábyggilega áhrif og mótar kynslóðirnar sem á eftir koma með einum eða öðrum hætti.“

Stefáni finnst athyglisvert hversu hagir embættismanna, til dæmis eins langafa Lilju, prests og prófasts, voru til mikilla muna betri en alþýðufólks á 19. öld. „Flest börn hans menntuðu sig og urðu m.a. læknar og lögfræðingar. Frá öðrum langafa hennar sem var leiguliði kom fyrsti stúdentinn hins vegar ekki fram á sjónarsviðið fyrr en tveimur kynslóðum síðar. Aðstæður ungs fólks til að mennta sig, koma undir sig fótunum og eignast jörð voru því afar misjafnar eftir því hverrar ættar það var. Fátækt og skortur á jarðnæði urðu meðal annars til þess að margir fluttust vestur um haf. Einhverjar frásagnir af Vesturförum á efalítið eftir að reka á fjörur þátttakenda þegar þeir fara að grúska í heimildum um fjölskyldu sína.“

Dýrmæt saga

Þegar Stefán hóf ættfræðigrúskið fannst honum lífshlaup margra forfeðra og -mæðra þeirra Lilju svo áhugavert að hann íhugaði að skrifa bók. Raunar hefur hann ekki gefið hugmyndina upp á bátinn en ætlar að bíða aðeins átekta. „Fyrst ætla ég að halda námskeiðið og reyna að átta mig á hvað það er sem þátttakendur hafa áhuga á og koma þeim á sporið í eigin fjölskyldusögu. Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af að vera eins og í messu þar sem bara presturinn talar. “

Og þótt námskeiðið verði fólki kannski hvorki til framdráttar á ferilskránni né fjárhagslegs ávinnings vonar hann að það auðgi líf þess. „Ríkidæmi í formi fróðleiks og ánægju. Saga forfeðranna og -mæðranna er dýrmæt og verður ekki metin til fjár,“ segir hann.

Grúsk og greining

Manntalið 1703 er líklega elsta manntal í heimi sem enn er varðveitt þar sem getið er allra þegna heillar þjóðar með nafni, aldri og stöðu.

Á námskeiðinu fer Stefán yfir aðferðir til að leita og greina upplýsingar á sístækkandi gagnasöfnum á netinu, t.d. í Íslendingabók, manntölum á vef Þjóðskjalasafnsins allt frá 1703 og ýmsum tímarits- og blaðagreinum á timarit.is og Google.

Fjallað er um sögu og einkenni íslensks samfélags á 19. og 20. öld til að varpa ljósi á upplýsingar sem þátttakendur finna um ættingja sína. Enn fremur verða skoðaðar aðferðir ættfræðinga og sagnfræðinga sem hafa lagt áherslu á fjölskyldusögu.

Námskeiðið er ætlað öllum sem vilja fræðast um sögu forfeðra sinna og -mæðra með eigin grúski.

Endurmenntun Háskóla Íslands. Ættfræðigrúsk – fjölskyldusaga þín á netinu. Þrjú skipti, kl. 19.30 – 21.30, miðvikudagskvöldin 26. apríl og 3. og 10. maí. Snemmskráning til og með 16. apríl.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert