Facebook hefði logað vegna Neskirkju

Sr. Skúli Sigurður Ólafsson sóknarprestur og Grétar Reynisson listamaður við …
Sr. Skúli Sigurður Ólafsson sóknarprestur og Grétar Reynisson listamaður við verkið 500 fingraför í safnaðarheimili Neskirkju.

Allir sem mættu í messu í Neskirkju síðasta sunnudag settu hendur sínar í mold og fingraför sín á vegg. Þessi gjörningur listamannsins Grétars Reynissonar er hluti af afmælisdagskrá Neskirkju en á morgun, sunnudag, verða sextíu ár liðin frá því hún var vígð.

Haldið verður upp á afmælið með margvíslegri dagskrá mestallt árið, m.a. með myndlistarsýningum, tónleikum, almenningshlaupum og göngu og svo mætti lengi telja.

„Þetta er auðvitað stórmerkileg kirkja, fyrsta móderníska kirkjan sem byggð var hér á landi og fyrsta safnaðarheimilið sem er líka gallerí,“ segir sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju. Um Neskirkju hefur ekki alltaf ríkt sátt en í dag er hún friðuð og einn af miðpunktum mannlífsins í Vesturbæ Reykjavíkur.

Tvær myndir með fjörutíu ára millibili

Í safnaðarheimilinu eru nú til sýnis verk Grétars. Verkin heita 20 40 60 og 500 fingraför. Skúli segir sýninguna ríma vel við starf kirkjunnar og afmælið. Grétar er fæddur árið 1957, sama ár og Neskirkja var vígð. Er hann var tvítugur tók hann mynd af hendinni á sér eftir að hafa þrýst henni í mold. Hann tók svo aðra eins mynd í vetur þegar hann var orðinn sextugur. Myndirnar tvær eru því teknar með fjörutíu ára millibili. „Verkið 20 40 60 vísar til þess hvernig tíminn fléttast saman í fortíð og nútíð listamannsins, hvernig lífið lætur smátt og smátt undan dauðanum, líkaminn undan náttúrulegum breytingum sem honum eru áskapaðar,“ segir í lýsingu á verkinu í fréttatilkynningu.

Sr. Skúli Sigurður Ólafsson setur molduga höndina á vegg í …
Sr. Skúli Sigurður Ólafsson setur molduga höndina á vegg í Neskirkju. Gjörningurinn sem kirkjugestir tóku þátt í á sunnudag varð að listaverkinu 500 fingraför.

Allir sem mættu í messu í Neskirkju síðasta sunnudag settu svo hendur sínar í mold og fingraför sín svo á vegg. Á öðrum hluta veggjarins eru svo klútarnir sem kirkjugestir notuðu til að þurrka moldina af höndum sínum. Með þessum gjörningi Grétars varð til verkið 500 fingraför.

Skúli segir að í báðum þessum verkum Grétars sé unnið með tímann og moldina, hluti sem passi vel að kirkjunnar starfi. „Moldin er svona eins og tíminn, bæði líf og dauði,“ bendir Skúli á.

Á sjálfan afmælisdaginn verður vígslumessa í kirkjunni og kaffi að henni lokinni. En hvernig kirkja er Neskirkja?

„Lengi býr að fyrstu gerð,“ segir Skúli um andrúmsloftið í kirkjunni. „Hún var fyrsta kirkjan á Íslandi sem var hönnuð fyrir fólk, ef svo má segja.“

Árið 1940 þegar Reykjavík var orðin of fjölmenn fyrir eina sókn var henni skipt upp í fjórar sóknir. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, fékk það verkefni að teikna kirkjur fyrir Hallgrímssókn og Lauganessókn. Önnur leið var valin fyrir Neskirkju og efnt til samkeppni um hönnunina. Ágúst Pálsson var valinn til að teikna húsið og gerði hann það í anda módernismans sem þá var að ryðja sér til rúms. En hönnunin olli miklum og hörðum deilum. Að lokum var ákveðið að senda teikningarnar til sérfræðings í Ameríku, finnska arkitektsins Eliel Saarinen, til að votta að kirkjan væri í lagi. Eftir að hann lagði blessun sína yfir hönnunina var hafist handa við byggingu kirkjunnar.

Neskirkja árið 1990.
Neskirkja árið 1990. mbl.is/Árni Sæberg

Torgstemning í kirkjunni

„Við erum enn þá að vinna með þessa hugmyndafræði um kirkju fólksins,“ segir Skúli og bendir á að fjölmargt sé í gangi í kirkjunni, s.s. fyrirlestrar og jóga, og hún því vel nýtt af söfnuðinum. Hönnun hennar henti til slíks. „Það er því svolítil torgstemning ríkjandi í Neskirkju og þannig viljum við hafa það.“

- Svo að friður hefur skapast um Neskirkju?

„Það er alveg óhætt að segja það, því hún er friðuð,“ segir Skúli og hlær. „Það sem var nýstárlegt og frumlegt er nú orðið friðað. Svona verða byltingarnar allt í einu settar í formalín.“

- Lærðum við eitthvað sem þjóð á þessum miklu deilum um kirkjuna á sínum tíma?

„Það væri óskandi,“ svarar Skúli. „En mér sýnist nú hávaðinn sem einkenndi þessar umræður margsinnis hafa endurtekið sig, þar er svolítil dómharka og mikill ótti við það sem er nýstárlegt.“

- Facebook hefði logað ef hún hefði verið til á þessum tíma?

„Netheimar hefðu logað,“ tekur Skúli hlæjandi undir. „Og það er enn verkefni okkar að beina umræðunni á vitrænar og kærleiksríkar brautir. Það er ekki alltaf hægt að leggja málin í hendur gúrúa í útlöndum eins og gerðist í tilviki Neskirkju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert