Blint til aksturs á Hellisheiði

Blint er til aksturs á Hellisheiði þar til í nótt, …
Blint er til aksturs á Hellisheiði þar til í nótt, segir Vegagerðin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Víða um land má búast við dálítilli snjókomu ofan 200 til 300 metra, en yfirleitt verður vindur ekki hvass, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Í tilkynningu frá henni segir að á láglendi hláni með slyddu eða rigningu en á fjallvegum muni snjóa. Blint verði þá til aksturs á Hellisheiði þar til í nótt.

Vegir eru sagðir mikið til auðir á Suðurlandi en hálka, hálkublettir og éljagangur sé þó á fjallvegum. Á Vesturlandi mun vera hálka, hálkublettir og éljagangur.

„Hálka eða hálkublettir eru á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum sem og éljagangur. Snjóþekja er á Hrafnseyrarheiði en þungfært á Dynjandisheiði. Þungfært er norður í Árneshrepp á Ströndum.

Það eru hálkublettir og éljagangur á Norðurlandi vestra og hálkublettir eða hálka nokkuð víða á Norðausturlandi.

Á Austurlandi eru hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi. Ófært er á Mjóafjarðarheiði. Með suðausturströndinni eru hálkublettir og éljagangur,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Þungatakmarkanir vestanlands

Þá eru vegna hættu á slitlagsskemmdum þungatakmarkanir á köflum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Víðast er um að ræða 10 tonna ásþungatakmarkanir en þó er ásþungi takmarkaður við sjö tonn á Bíldudalsvegi (63) frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi (60) við Helluskarð og á Vestfjarðavegi (60) frá Flókalundi að Þingeyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert