Elly Vilhjálms og Edith Piaf

Leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir á fjárhund sem nefndur er í …
Leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir á fjárhund sem nefndur er í höfuðið á söngkonu. mbl.is/RAX

Elly Vilhjálms er ekki eina söngkonan í lífi Katrínar Halldóru Sigurðardóttur, sem leikur Elly í sýningu Borgarleikhússins, en hún flutti nýverið inn tíkina Edith Piaf frá Frakklandi.

„Hún kom til okkar í september, frá Frakklandi, þess vegna heitir hún Edith Piaf. Þetta er stór loðin Edith Piaf – ekki pínulítill fugl, en hún varð að hafa dívunafn. Það eru því Elly og Edith á mínu heimili,“ segir Katrín.

Spurð hvort tíkin Edith sé jafn hávær og söngkonan segir hún svo ekki vera. „Hún er rosa hljóðlát en hún á það til að gelta svolítið enda er hún bara unglingur. Hún er rosa skapgóð og skemmtileg týpa að eiga.“

Kærastinn passar meðan Elly er í sýningu

Sýningar á Elly í Borgarleikhúsinu eru í fullum gangi og því í nægu að snúast hjá Katrínu. „Við erum að sýna núna fyrir fullu húsi fimm sýningar í viku. Sýningar verða síðan teknar aftur upp í haust og þá verður hún færð yfir á stóra sviðið,“ segir Katrín og bætir við að kærasti hennar sjái um að passa Edith á meðan hún bregður sér í hlutverk Ellyar.

Tíkin Edith er af tegundinni Old English Sheepdog og segir Katrín að eðli þeirra sjáist greinilega í hegðun Edith.

„Þeir eru smalahundar í eðli sínu og ef þeir eru í kringum margt fólk byrja þeir alltaf að hlaupa í hringi og reyna að smala fólki í hnapp. Það er svo ríkt í þeim smalahundseðlið.“

Nauðsynlegt að eiga góða ryksugu

Katrín segir tegundina sjaldgæfa hér á landi. „Þeir eru ekki margir hér. Við fluttum inn tík því mágkona mín er með rakka og það var engin tík á landinu fyrir hann. Við erum svolítið saman í þessu,“ segir Katrín og hlær við. Hún bætir þó við að fólk ætti að kannast við tegundina, þar sem Edith er sömu tegundar og hundurinn í teiknimyndunum um litlu hafmeyjuna frá Disney-framleiðandanum í Bandaríkjunum.

Þótt Edith sé einstaklega skapgóð og ljúf í umgengni fylgir mikil vinna því að hafa hana á heimilinu. „Það er rosalega mikil umhirða sem fylgir feldinum hennar og maður þarf að passa að hann fari ekki í flóka. Svo er gott að eiga góða ryksugu líka,“ segir hún og hlær við.

Gamlir enskir fjárhundar

Í Englandi voru ekki haldnar neinar skrár yfir hvenær Old English Sheepdog-tegundin varð til en elstu heimildina um slíka hunda er að finna í málverki af hundategundinni eftir Gainsborough frá 1771. Samkvæmt The American Kennel Club, sem sér um rannsóknir og skráningu hunda í Bandaríkjunum, eru hundarnir orkumiklir og fullir af gleði. Þá eiga þeir það til að reyna að smala fólki og hlutum saman ef tækifæri gefst. Hundarnir eru oft notaðir í ýmsar keppnir s.s. þrautakeppnir, keppni í hlýðni eða smölunarkeppni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert