Hluti farmsins var í breskri eigu

SS Porta, systurskip SS Minden.
SS Porta, systurskip SS Minden. Wikipedia

Vaknað hefur upp skyndilegur áhugi á örlögum þýska flutningaskipsins Minden sem sökkt var á hafsvæðinu á milli Íslands og Færeyja í lok september 1939 eftir að fréttir bárust af því að erlent rannsóknarskip væri að reyna að bjarga verðmætum úr flakinu. Þó ekki hafi fengist nákvæmar upplýsingar um það hvaða farmur hafi verið í Minden þegar skipið hvarf í hafið liggja engu að síður fyrir einhverjar vísbendingar í þeim efnum þó ekki séu þær miklar.

Minden var hleypt af stokkunum árið 1921 af þýsku skipasmíðastöðinni Vulcan A.G. sem hafði starfsemi bæði í þýsku borginni Hamburg og pólsku borginni Szczecin sem þá tilheyrði Þýskalandi og bar nafnið Stettin. Minden var gufuskip, smíðað úr stáli og um 4300 tonn að þyngd. Skipið var 116,8 metrar á lengd, 15,5 metrar á breidd og 7,9 metrar á hæðina. Hámarkshraði Minden var 15,5 hnútar og var það bæði útbúið til að flytja varning og farþega.

Tvö systurskip sigldu á tundurdufl og fórust

Minden var smíðað fyrir þýska skipafélagið Norddeutscher Lloyd en samtals voru fimm slík skip smíðuð fyrir félagið og þrjú önnur fyrir systurfélag þess Roland-Linie. Systurskip þess í eigu Norddeutscher Lloyd voru Porta, Nienburg, Eisenach og Erfurt. Tvö þau síðastnefndu fórust einnig í síðari heimsstyrjöldinni en bæði sigldu þau á tundurdufl. Annars vegar við strendur Búlgaríu og hins vegar í Eystrasaltinu. Heimahöfn Minden var borgin Bremen í Þýskalandi.

mbl

Fram kemur í bókinni War, Terror and Carriage by Sea frá 2004 eftir Keith Michel, prófessor við University College London, að skipið hafi siglt frá Buenos Aires höfuðborg Argentínu 16. ágúst 1939 á leið til borgarinnar Durban í Suður-Afríku. Í Durban átti að umskipa farminum og flytja hann áfram austur á bóginn til Hong Kong og/eða Sjanghæ. Hins vegar kom Minden aldrei til Durban heldur sneri við á mðri leið og hélt aftur til Suður-Ameríku.

Tekin ákvörðun um að fara til Þýskalands

Minden kom til hafnar í borginni Santos í Brasilíu 24. ágúst en breytt áætlun var afleiðing fyrirskipunar frá þýskum stjórnvöldum til þarlendra kaupskipa um að sigla í hlutlausa höfn ef þau sæu sér ekki fært að komast til heimalandsins. Sama dag hélt skipið för sinni áfram og kom til Rio de Janeiro daginn eftir. Þar hélt skipið til þar til 6. september en þá hafði heimsstyrjöldin hafist formlega 3. þess mánaðar. Hélt Minden þá af stað til Þýskalands. 

För Mindens var stöðvuð norðvestur af Færeyjum af breska beitiskipinu Calypso en til þess að forða því að skipið félli í hendur Bretum og í samræmi við fyrirskipanir frá þýskum stjórnvöldum opnaði áhöfnin botnhlerana í skipinu þannig að sjór flæddi inn í það áður en hún fór í björgunarbátana. Breska beitiskipið Dunedin, sem kallað hafði verið á vettvang af Calypso, bjargaði skipverjum og flutti þá síðan til flotastöðvarinnar í Scapa Flow í Skotlandi.

Breska beitiskipið HMS Calypso.
Breska beitiskipið HMS Calypso. Wikipedia

Dómsmál fór af stað í kjölfar þessa atburðar þar sem eigendur farmsins vildu að tryggingafélagið sem tryggði hann bætti þeim tjón þeirra. Fjallað er um dómsmálið í bók Michels en þar kemur fram að farmurinn hafi að hluta til verið í eigu breskra aðila. Deilan snerist um það hvort farminum hefði verið rænt þegar Minden hélt til Þýskalands samkvæmt fyrirmælum þýskra stjórnvalda í stað þess að fara þangað sem áður hafði staðið til.

Brak úr Minden rak upp á strendur Íslands

Fram kemur í bókinni að dómsmálið hafi snúist um örlög farms í eigu breskra hagsmunaaðila sem tryggður var í Bretlandi en settur um borð í flutningaskip í þýskri eigu um það leyti sem styrjöldin var að brjótast út. Einnig hvort farmurinn hafi verið tryggður á leiðinni til Þýskalands þar sem tryggingin hafi náð til siglingar á annan áfangastað. Ennfremur kemur fram að hluti farmsins hafi verið í eigu þýskra aðila. Eina sem minnst er á í þeim efnum er trjákvoða.

Skömmu eftir að Minden sökk fór brak úr skipinu að reka á suðurströnd Íslands. Þar á meðal ár úr björgunarbát merkt skipinu og björgunarhringir. Skyndilegur áhugi á flaki Minden hefur vakið upp margar spurningar en rannsóknarskipinu Seabed Constructor var snúið til hafnar hér á landi á dögunum eftir að hafa verið við störf á svæðinu þar sem Minden sökk en stasetningin er innan íslensku efnahagslögsögunnar. Skipið, sem er í norskri eigu, var leigt af breskum aðilum.

Tilgangurinn með veru Seabed Constructor hér við land er sagður vera sá að bjarga verðmætum úr flaki Minden. En hver þau verðmæti eru nákvæmlega er hins vegar ekki ljóst.

Breska beitiskipið HMS Dunedin.
Breska beitiskipið HMS Dunedin. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert