Húðflúrið af flokknum fer ekki

Páll Valur Björnsson er fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar.
Páll Valur Björnsson er fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, er hættur í flokknum. Hann segist ekki eiga lengur samleið með honum eftir að hann fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. „Á fundinum þegar kosið var um samstarfið kaus ég gegn því vegna þess að mér finnst Björt framtíð ekki eiga samleið með Sjálfstæðisflokknum,“ segir Páll.

Þessi ákvörðun hefur setið í Páli. Kornið sem fyllti mælinn var ákvörðun þingmanna Bjartrar framtíðar um að styðja ekki frumvarp sem Páll lagði fram síðasta haust um gjaldfrjálsan grunnskóla og var tekið upp að nýju fyrir stuttu. „Það er víða pottur brotinn varðandi kjör barna og þau eiga að fá ritföngin og annan efniskostnað frían,“ segir Páll.

Hann gagnrýnir einnig að fyrrverandi samflokksmenn hans hafi samþykkt frumvarp sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lagði fram sem kveður á um að hægt sé að vísa fólki strax úr landi sé umsókn þeirra metin bersýnilega tilhæfulaus og umsækjandi komi frá öruggu ríki.

Merki Bjartrar framtíðar er á upphandlegg Páls Vals.
Merki Bjartrar framtíðar er á upphandlegg Páls Vals.

Með hjarta jafnaðarmannsins

„Það slær í mér jafnaðarmannahjarta og ég vildi að Björt framtíð myndi fara meira í þá átt en hún gerir það ekki. Mér finnst vont að vera innan um fólk sem mér þykir vænt um en er ósammála,“ segir Páll. 

Hann segist ekki bera neinn kala til flokksins né fólksins í honum. Hann er stoltur af því að hafa setið á þingi síðasta kjörtímabil fyrir Bjarta framtíð. Hann hyggst ekki láta fjarlægja húðflúr sem hann er með af merki flokksins á upphandleggnum. „Björt framtíð er stór hluti af mér og mér þykir mjög vænt um þetta húðflúr,“ segir Páll. 

Hér á vefsíðu Nútímans er hægt að sjá húðflúr Páls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert