Þurfum að vera við öllu búin

Lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi á laugardaginn, daginn eftir árásina.
Lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi á laugardaginn, daginn eftir árásina. AFP

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að við þurfum að vera undirbúin vegna mögulegrar hryðjuverkaógnar í kjölfar hryðjuverkanna sem framin voru í Stokkhólmi á föstudag. Hún bendir á að auknu fé hafi verið varið til löggæslu í fyrra og ár.

Gylfi Hammer Gylfa­son, sett­ur aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn í grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að bæta þurfi við almennum lögreglumönnum og mönnum í sérhæfðar miðlægar deildir ríkislögreglustjóra, svo sem greiningardeild, alþjóðadeild, almannavarnardeild og sérsveit. Einnig þurfi að efla búnað sérsveitarinnar.

Sigríður segist treysta því að ríkislögreglustjóri meti þetta og forgangsraði eins og hann telji rétt. „Það liggur alveg fyrir að þetta er ein af þeim áskorunum sem við þurfum að horfa til í löggæslumálum,“ segir Sigríður.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún bendir á að auknu fé, sem veitt hafi verið til löggæslu í fjárlögum fyrir þetta ár, hafi verið forgangsraðið. „Þessu fé hefur verið forgangsraðað í ljósi aukinnar innkonu á Keflavíkurflugvelli, bæði landamæravörslu og löggæslu í tilefni af ferðamönnum og hælisleitendum og þar fram eftir götunum,“ segir ráðherra og bætir við að stefnt séað í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sé gert ráð fyrir varanlegri aukningu til löggæslumála.

Ég hef sagt að auðvitað er almennur viðbúnaður lögreglu, sem felst í nýjustu tækni, nýjustu tækjum og samstarfi við önnur lögregluyfirvöld í löndunum í kringum okkur, það sé besti viðbúnaðurinn,“ segir Sigríður þegar hún er spurð hvort við þurfum að vera betur undirbúin vegna hryðjuverkaógnar.

„Eins og staðan er í dag tekur almennur viðbúnaður tillit til hryðjuverkaógnar eins og annarra glæpa. Það er best ef við getum haldið þessum almenna viðbúnaði og uppfært hann jafn óðum og tilefni er til,“ segir Sigríður og bætir við að það sé reynt að gera lögreglunni kleift að takast á við fjölbreyttari glæpastarfsemi en hún hafi hingað til þurft að glíma við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert