„Við fáum vissa útrás með þessu“

Félagar í list og lífi. Jóhann, Halldór og Bjarni segja …
Félagar í list og lífi. Jóhann, Halldór og Bjarni segja (gisp!) tímaritið vera órjúfanlegan hluta af lífi þeirra. mbl.is/RAX

Þeir segja það hafa valdið þeim vonbrigðum í gegnum tíðina hvað þeim hefur lítið tekist að sjokkera fólk með (GISP!)-blöðunum, sem innihalda fullorðins myndasögur. Gispverjar kryfja innri manninn, tilgang lífsins og tilgang listarinnar með myndasögum.

Allt á þetta upphaf sitt í því að Helena Guttormsdóttir frá Hvanneyri leiddi okkur félagana saman fyrir tæpum þrjátíu árum. Hún fór oft með okkur í bíltúra á bíl ömmu sinnar, en þá var Bjarni nýkominn heim úr námi í myndasögugerð í Frakklandi og við Jói nýútskrifaðir úr Mynd og hand. Helena er því guðmóðir myndasögutímaritsins (GISP!),“ segir Halldór Baldursson um eftirlifandi gispara, hann, Bjarna Hinriksson, Jóhann Ludwig og Þorra Hringsson, sem nýlega sendu frá sér tólfta tölublað hinnar guðdómlegu innri spennu og pínu, sem titill blaðsins stendur fyrir.

Mættir á Ölstofuna. Úr sögu Bjarna, Krraft og Terrmitik.
Mættir á Ölstofuna. Úr sögu Bjarna, Krraft og Terrmitik.


„Þegar við vorum að byrja að gefa út þetta tímarit fengum við gjarnan spurninguna: „Myndasaga? Hvað er það?“ líkt og enginn hefði nokkurn tíma lesið Tinna, Andrés eða Ferdinand. En við þurfum ekki lengur að svara slíkum spurningum,“ segir Halldór. „Þessi upphrópun (GISP!) var okkar leið til að segja: þið haldið að þetta sé venjulegt myndasögublað, en þannig er það ekki.“

Bjarni segir að þeir hafi fljótlega farið að setja upp myndlistarsýningar í tengslum við útgáfuna og þannig stimplað sig inn sem sýningarhópur, en þeir voru fleiri sem teiknuðu í fyrstu tölublöðin, Þórarinn B. Leifsson, Bragi Halldórsson og Óli Engilberts. „Óli tengdi gisp við Smekkleysuútgáfuna og þá varð þetta hluti af neðanjarðarmenningunni.“

Drungi yfir borginni. Brot úr sögu Jóhanns, Ad acta.
Drungi yfir borginni. Brot úr sögu Jóhanns, Ad acta.


Við erum að springa af gleði

Strax var tekin sú ritstjórnarlega stefna að bæta við kvenkyns teiknurum og þeir reyndu að hafa einn kvenhöfund í hverju blaði, en nú eru þeir fjórir strákarnir sem standa eftir. „Við erum ánægðastir með þetta nýja blað, það er svo hreint og beint. Við erum allir orðnir aðeins betri en við vorum og erum því að springa af gleði yfir þessu eintaki. Mér líður á svipaðan hátt og þegar fyrsta blaðið kom út, þessi bjartsýni er óslökkvandi,“ segir Halldór og rifjar upp að í árdaga tímaritsins héldu þeir að list, kómík og gleði myndi sigra heiminn.

Jói segir að þeir hafi verið hrikalega metnaðarfullir fyrstu árin og gefið út fjögur blöð á stuttum tíma. „Þegar fyrsta tölublaðið kom út fengum við gagnrýni frá helstu myndlistargagnrýnendum samtímans, sem var frábært fyrir okkur ungu strákana.“ Halldór segir að hann muni aldrei gleyma hrollinum sem fór niður eftir baki hans þegar hann las fyrstu setninguna í dómi Braga Ásgeirssonar: „Það er margt yfirmáta dásamlegt í útlandinu dettur manni í hug við uppflettingu myndasögublaðsins „Gisp“, en fyrsta hefti þess er nýkomið út – og satt að segja því miður hér á landi.“

Bíóferð. Gaga og Púkó fara í bíó í einni sögu …
Bíóferð. Gaga og Púkó fara í bíó í einni sögu Halldórs.


Það sem við gerum skiptir okkur miklu máli

Þeir segja að í nýja tölublaðinu sé að finna þó nokkra sjálfsskoðun. „Við erum á einhvern hátt að kryfja innri manninn, tilgang lífsins og tilgang listarinnar,“ segir Halldór og Bjarni bætir við að þeir hafi verið að leika sér með formið, vera ekki endilega með línulega frásögn, skapa frekar andrúmsloft. „Það sem er skemmtilegt við myndasögu er þessi heimur sem skapast á þeim tíma sem flett er í gegnum söguna. Við vinnum út frá stemningunni og ég mundi vilja líkja því sem við erum að gera við ljóð. Það sem teymir okkur áfram er að við vitum ekki alltaf hvernig sagan þróast, við leggjum af stað og svo kemur í ljós hvað gerist. Gleðin yfir því að búa til einhvern heim er sterkur þáttur hjá okkur,“ segir Bjarni.

„Þetta hefur alltaf verið afslappað hjá okkur og við þvingum aldrei neitt fram. Þetta kemur fullskapað. Það sem við gerum skiptir okkur miklu máli og tímaritið er okkar hjartans mál. Þess vegna munum við aldrei hætta,“ segir Jói og Halldór bætir við að í hópnum ríki fullkomið óræði. „Það er mikil eining og anarkí. Við vitum alveg hvernig við erum og treystum hver öðrum. Við erum góðir vinir og njótum þess að hittast og tala um myndasögur og stundum eigum við saman teiknistundir, þótt hver og einn sé að teikna sitt.“

Við erum að springa af gleði
Við erum að springa af gleði


Enginn blús í neinum lengur

Ánægjan sem fylgir því að búa til myndasögur heldur þeim gispurum greinilega við efnið. „En við höldum líka áfram að teikna myndasögur í (GISP!) af því að það er órætt fyrirbæri. Við höfum aldrei fundið út hver er okkar markhópur. Við köstum þessu bara út. En við eigum vissulega fasta kaupendur í ákveðnum fylgishóp, eitt tölublaðið var til dæmis aðeins gefið út í fimmtíu eintökum og það seldist upp í einum grænum hvelli og er fyrir vikið eftirsótt í dag,“ segir Jói og bætir við að hann sjái enga ástæðu til að hætta að teikna og gefa út blað, ákveðin saga hafi orðið til á þessum langa tíma sem sé dýrmæt fyrir þá gispara.

Þegar þau orð falla í spjallinu að framtíð myndasögunnar sé björt mótmælir Halldór:

„Framtíðin er grá, fyrir okkur gispara. En það verður allt í lagi, það þarf ekki allt að vera svart og hvítt. Grátt er gott. Mér leiðist þessi bjarta framtíð, allir fá ofbirtu í augun, það er enginn blús í neinum lengur. Fólk er annaðhvort himinlifandi eða alveg kolbikasvart, það vantar allt litróf þarna á milli. En (GISP!) er einmitt þarna á milli, sem helgast af því að við eigum hvergi heima, það er ekki hægt að troða (GISP!) í neitt ákveðið box.“

Helgi Dagur. Brot úr sögu Þorra Hringssonar, Helgi Dagur - …
Helgi Dagur. Brot úr sögu Þorra Hringssonar, Helgi Dagur - Bingó.


Aldrei fengið yfir okkur holskeflu hneykslunar

Og nú fara þeir á flug. Halldór segir þá vera að sálgreina sig sjálfa í gegnum myndasögurnar í (GISP!): „Við fáum vissa útrás með þessu, því við áttum mjög erfitt með að tjá okkur á yngri árum, en eigum auðvelt með það í dag,“ fullyrðir Halldór og vekur með því hlátur félaga sinna.

„(GISP!) er sennilega sjálfshjálparblað fyrir okkur, enda hefur það fylgt okkur öll fullorðinsárin og fyrir vikið er það orðið stór hluti af okkur sjálfum,“ segir Jói og Bjarni bætir við að þetta sé ekki ósvipað og með stórfjölskylduna, hún sé jú órjúfanlegur hluti af lífi hvers manns.

„Við getum alltaf snúið aftur til (GISP!), rétt eins og til fjölskyldunnar. Þetta hefur verið gaman, og leyfir okkur að vera alveg óbundnir,“ segir Bjarni og Halldór segist þá sjá (GISP!) fyrir sér sem hressan sálfræðing, sem hefur náð að gera þá félagana frjálsa.

„En það hefur valdið okkur vonbrigðum í gegnum tíðina hvað okkur hefur lítið tekist að sjokkera fólk með gisp-blöðunum, við höfum aldrei fengið yfir okkur holskeflu hneykslunar, þótt við séum alltaf með kúk og typpi og nekt í þessum blöðum.“

Í beinu framhaldi af því er vert að geta þess að fremst í blaðinu er borðspilið kúkur og piss, eftir Jóa, alveg tilvalið fyrir alla fjölskylduna til að spila í páskafríinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert