Margir skákmenn með fullt hús

Þessi drengur er áhugasamur um skák.
Þessi drengur er áhugasamur um skák.

Önnur umferð GAMMA Reykjavíkurskákmótsins fór fram í morgun. Allir sterkustu skákmenn mótsins komust slysalaust í gegnum umferðina og því enn gríðarlegur fjöldi skákmanna með fullt hús vinninga. Mesta athygli vakti skák Anish Giri (2.771) við Vigni Vatnar Stefánsson (2.341). Vignir stóð sig vel og þurfti að láta Hollendinginn hafa vel fyrir vinningnum en hann hafðist eftir 44 leiki. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Jóhann Hjartarson (2.536) er efstur Íslendinga og sá eini sem er með fullt hús ásamt efstu mönnum með tvo vinninga. Jóhann vann í dag snarpan sigur í fallegri sóknarskák og er til alls líklegur. Jóhann hefur ekki teflt á Reykjavíkurskákmóti í 21 ár en hefur fært taflmennsku aðeins í aukana undanfarið og varð m.a. Íslandsmeistari í fyrra.

Leikar taka að æsast í þriðju umferðinni sem fram fer klukkan fimm í dag en þetta er eini dagurinn þar sem keppendur tefla tvær skákir.  Jóhann mætir indverskri skákkonu í þriðju umferðinni og eins munu margir fylgjast með Eugenio Torre, goðsögninni frá Filippseyjum, sem mun etja kappi við Íslandsvininn Gawain Jones.

Áhorfendur eru velkomnir í Hörpu en Helgi Áss Grétarsson mun sjá um skákskýringar frá klukkan 19.

Einbeittir skákmenn á Gamma Reykjavíkurskákmótinu.
Einbeittir skákmenn á Gamma Reykjavíkurskákmótinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert