Frestur United Silicon framlengdur

Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Frestur United Silicon til þess að gera athugasemdir við þá fyrirtætlan Umhverfisstofnunar að stöðva starfsemi kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík hefur verið framlengdur til miðnættis á mánudaginn en upphaflegur frestur var til hádegis í dag. Fresturinn var veittur til að koma að athugasemdum áður en tekin verður endanleg ákvörðun um að stöðva starfsemina.

Þetta segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is. Ástæðan fyrir framlengingunni er sú að forsvarsmenn United Silocon höfðu samband við stofnunina og óskuðu eftir því að funda með fulltrúum hennar og erlendum ráðgjöfum fyrirtækisins. Ekki reyndist hins vegar mögulegt að koma á slíkum fundi fyrr en seinnipartinn í dag.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

„Við getum þá farið að vinna úr þessu á þriðjudagsmorguninn. Hins vegar er náttúrulega lokað hjá þeim. Fyrir það fyrsta lítum við svo á að þeim sé óheimilt að hefja starfsemi á ný án þess að tala við okkur og síðan komast þeir ekki af stað vegna vegna eldsvoðans hjá þeim í síðustu viku og hefur það komið skýrt fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins,“ segir Kristín. Fyrir vikið liggi ekki eins mikið á í þessum efnum.

„Með stöðvuninni erum við að segja við United Silicon að þeim sé óheimilt að fara af stað með starfsemina á nýjan leik nema að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun,“ segir hún. Það leyfi verði ekki veitt fyrr en það sem þurfi að laga hafi verið fært til betri vegar og komist til botns í þeim málum sem gerðar hafi verið athugasemdir við af hálfu stofnunarinnar. Stofnunin gerir þó ráð fyrir að heimila uppkeyrslu á ofni í rannsóknarskyni en þá verði stofnuninni og almenningi tilkynnt um það fyrirfram.

Hins vegar er ekki til skoðunar nú að svipta United Silicon starfsleyfi. „Við gerum skýran greinarmun á því að stöðva starfsemi, og erum þá að gera ráð fyrir því að hún geti farið af stað aftur, og að svipta starfsemi starfsleyfi. Það kemur alveg skýrt fram í bréfi okkar til fyrirtækisins fyrir páska.“ Hún segir að áhugavert verði að heyra sjónarmið fulltrúa þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert