Hætta á snjóflóði af mannavöldum

Maður slasaðist í snjóflóði í hlíðum Esjunnar í dag.
Maður slasaðist í snjóflóði í hlíðum Esjunnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er talsverður snjór til fjalla og nýlegir flekar sem hafa komið í skafrenningnum í vikunni. Það er alltaf hætta á að snjóflóð geti orðið af mannavöldum í þessum aðstæðum. Fólk sem ferðast í bröttum fjallshlíðum þarf að kunna að meta aðstæður eins og snjóalög, mögulega snjóflóðahættu og velja því leiðirnar vel,“ segir Harpa Grímsdóttir snjóflóðafræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Karl­maður slasaðist al­var­lega þegar hann lenti í snjóflóði í Esj­unni um klukk­an 13 í dag. Veðurstofunni hafa ekki enn borist upplýsingar um hvar nákvæmlega snjóflóðið féll. 

Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að kynna sér mat á snjóflóðahættu. „Víða er talsvert nýsævi til fjalla, sem gæti verið óstöðugt,“ segir á vefnum. Nokkur flóð hafa fallið á miðvikudaginn og fimmtudaginn og einnig féll eitt af mannavöldum á miðhálendinu á föstudag. Flestar tilkynningar um snjóflóð koma á þeim svæðum þar sem snjóathugunarmenn starfa. 

Snjóflóðaspá fyrir fjallendi í nágrenni höfuðborgarinnar

Á vefnum er jafnframt gefin út snjóflóðaspá fyrir þrjú svæði, fyrir norðanverða Vestfirði, Austfirði og utanverðan Tröllaskaga. Vonir eru bundnar við að fyrir næsta vetur verði bætt við snjóflóðaspá fyrir fjalllendi í nágrenni höfuðborgarinnar. Það yrði því fjórða svæðisbundna spáin sem fólk geti nýtt sér sem ferðast í snjóalögum í fjalllendi.

„Spáin yrði ekki nákvæm fyrir einstakar brekkur. Fólk þarf að meta aðstæður sjálft út frá þeim upplýsingum sem það er með. Spá kemur ekki í veg fyrir slys. Það er alltaf hætta á að menn geti sett af stað snjóflóð og því mikilvægt að menn séu vel búnir,“ segir Harpa. 

Vetraraðstæður eru ennþá til fjalla, sérstakalega í efri hluta fjalla. Fólki fjölgar sem ferðast til fjalla á þessum árstíma, að sögn Hörpu. Hún ítrekar í þeim aðstæðum er mikilvægt að fólk kynni sér vel aðstæður.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert