Hefur séð Mamma Mia 42 sinnum

Óskar Albertsson ásamt leikurunum í Mamma Mia að lokinni sýningunni …
Óskar Albertsson ásamt leikurunum í Mamma Mia að lokinni sýningunni í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir finnast varla dyggari aðdáendur söngleiksins Mamma Mia en hann Óskar Albertsson. Hann sá sýninguna í Borgarleikhúsinu í 42. sinn í gærkvöldi. Honum þykir alltaf jafngaman að hverri einustu sýningu og segir hana vera „algjöra gleðisprengju“.

Að sýningunni lokinni hitti hann alla leikara sýningarinnar og var að vonum hæstánægður. Að sögn Óskars eru margir þeirra farnir að þekkja hann.   

„Það er bara allt í sýningunni, tónlistin, umgjörðin, leikararnir og sviðsmyndin,“ segir Óskar aðspurður hvað það er sem heilli við söngleikinn víðfræga. Hann vill ekki gera upp á milli leikara eða einstakra atriða í sýningunni því þeir standa sig allir með tölu óaðfinnanlega.

Óskar hefur séð Mamma Mia 42 sinnum, hvorki meira né …
Óskar hefur séð Mamma Mia 42 sinnum, hvorki meira né minna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta sýningin kom á óvart

Þegar Óskar sá sýninguna í fyrsta skipti kom hún honum á óvart. „Ég var hræddur um að þetta kæmi klúðurslega út eins og að þýða textana yfir á íslensku og hvernig lögin kæmu út.“ Þessar áhyggjur Óskars reyndust tilefnislausar. 

„Ég kvíði fyrir þegar hætt verður að sýna,“ segir Óskar. Sýningum á Mamma Mia lýkur í júní en verkið var frumsýnt í mars á síðast ári. 

„Ég vil þakka fyrir þessa stórkostlegu sýningu,“ segir Óskar að lokum af einlægni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert