Segir mikla orku fara í átök við stjórnvöld

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala hnýtti í stjórnvöld í ávarpi sínu.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala hnýtti í stjórnvöld í ávarpi sínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvernig má það vera að vel meinandi stjórnvöld neiti að horfa á blákaldar staðreyndir,“ sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítala í ávarpi sínu á ársfundi spítalans í dag. Hann sagði að ekki sé allt sem sýnist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en þrátt fyrir undirfjármögnun gangi starfsemin á spítalanum vel. 

„Þrátt fyrir stöðuga aukningu í eftirspurn eftir þjónustunni og gríðarlegt álag á starfsfólk og sjúklinga gengur, þegar á heildina er litið, vel hjá okkur,“ sagði Páll. Fjöldi skurðaðgerða hefur aukist sem og fjöldi rannsókna. Þeim sem bíða lengur en 3 mánuði eftir aðgerð hefur fækkað og meðalbiðtími fólks sem bíður eftir liðskiptaaðgerð hefur styst úr rúmlega 10 í 6 mánuði á einu ári. „Hvernig má allt þetta vera þegar litið er til þess sem stundum virðist endalaus fréttaflutningur af bágri stöðu á Landspítala?“

Páll vék að fjármögnun spítalans og sagði að árlega færi mikil orka í í átök við ríkisvaldið í tengslum við fjárlagagerð en starfsemin sé undirfjármögnuð enn eitt árið í samanburði við nágrannalönd. „Sá grunur hefur læðst að mér að kannski séu tölurnar, þegar við ræðum fjármögnun spítalans hreinlega of stórar til að fólk nemi þær.“

Brýnt að byggja upp hjúkrunarþjónustu

Páll sagði að á Landspítala hefði stundum verið rekið þriðja eða fjórða stærsta hjúkrunarheimili landsins. Það væri sennilega eitt það sísta en einn af hverjum fimm sem bíða á Landspítala eftir hjúkrunarheimili látast áður en þangað er komið. Á spítalanum séu 95 einstaklingar sem lokið hafa meðferð og gætu útskrifast samstundis ef samfélagið gæti veitt þeim viðunandi þjónustu.

„Þannig að ég get tekið undir það að spítalinn er að gegna hlutverkum sem hann á ekki að sinna. Og sem aðrir eru betur til þess fallnir að sinna,“ sagði Páll. „Það snýst ekki um að flytja flóknar, sérhæfðar skurðaðgerðir út af spítalanum, það snýst um það að byggja upp hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða, mjög hratt og vel, þannig að Landspítali geti sinnt sínu lögbundna hlutverki af sóma og þannig að aldraðir fái það ævikvöld síðasta spölinn sem þeir eiga skilið og eiga rétt á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert