„Dómur almennings liggur fyrir“

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is

„Ég held að það þurfi ekkert að leita álits á þessu. Ég held að staðreyndirnar tali bara sínu máli. Þegar við stofnuðum þennan flokk var hann næststærstur íslenskra stjórnmálaflokka og þróaðist síðan upp í það að vera stærstur. Síðan hrundi hann og það getur enginn kennt öðrum um en þeim sem veittu flokknum forystu. Þetta er bara þessi sorglega niðurstaða og það þýðir ekkert fyrir mig eða aðra að halda öðru fram. Þetta er bara svona.“

Frétt mbl.is: Telur Samfylkinguna eiga fullt erindi

Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, en Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sagði í gær að tilraunin með Samfylkinguna hefði mistekist. Hefur hann boðað mögulega stofnun nýs stjórnmálaflokks jafnaðarmanna. Sighvatur var formaður Alþýðuflokksins þegar Samfylkingin var sett á laggirnar með samruna Alþýðubandalagsins, Þjóðvaka og Kvennalistans auk Alþýðuflokksins. Hann sat á þingi í rúma tvo áratugi. Fyrst fyrir Alþýðuflokkinn og síðan Samfylkinguna.

Forystumennirnir skýri fall Samfylkingarinnar

Spurður hvort hann telji Samfylkinguna geta náð aftur sömu stöðu og áður segist Sighvatur ekki vita það. Flokkurinn hafi fengið mikla vöggugjöf en forystumennirnir sem síðan hafi tekið við honum yrðu að skýra ófarir hans. „Mér finnst alveg komin skýring á því að þeir svari því hvernig standi á því að flokkur sem þeir hafi tekið við í um og yfir 30% fylgi sé kominn niður í það sem hann er núna. Ef þeir hafa ekki skýringuna hver á þá að hafa hana?“

Frétt mbl.is: Vill sameina jafnaðarmenn

Þar með sé ekki sagt að það hafi verið mistök að stofna Samfylkinguna. Það hafi verið eitthvað sem hafi orðið að gerast. „Hins vegar var nýjum aðilum falin forystan og þeir skiluðu flokknum svona. Það er kominn tími til þess að þeir svari því. Ingibjörg Sólrún [Gísladóttir] og Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri. Hvernig standi á þessu að þeirra mati að svona hafi farið. Þeirra er að svara þessu en ekki okkar sem lögðum þetta tækifæri upp í hendurnar á þeim.“

Kynslóðir sem þekkja ekki Alþýðuflokkinn

Spurður hvort hann telji rétt að endurvekja Alþýðuflokkinn sem sjálfstætt stjórnmálaafl, en flokkurinn er enn til sem hluti Samfylkingarinnar, segist Sighvatur hræddur um að það kunni að vera of seint. Komnar séu fram kynslóðir sem ekki þekki Alþýðuflokkinn og fyrir hvað hann hafi staðið. „Við stóðum fyrir ákveðna hluti sem eru minni kynslóð í fersku minni og hvort sem aðrir voru sammála okkur eða ekki vissu þeir fyrir hvað við stóðum.“

Vandinn sé hins vegar sá að þær kynslóðir sem tekið hafi við viti lítið eða ekkert um Alþýðuflokkinn og pólitískar áherslur hans á sínum tíma. „Þær vita hins vegar fyrir hvað þeir standa sem við tóku og niðurstaða dóms almennings liggur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert