Ekki öruggt að nefndin fundi með Ólafi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, segir ekki liggja fyrir hvort …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, segir ekki liggja fyrir hvort stjórnaskipunar- og eftirlitsnefnd fundi með Ólafi Ólafssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki liggur enn fyrir hvort Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, muni koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins sem á sæti í nefndinni.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði í morgun og segir Lilja að Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar hafi þar gert grein fyrir því að Ólafur hafi haft samband og óskað eftir fá að koma fyrir nefndina.

„Það var samkomulag innan nefndarinnar að Ólafur Ólafsson myndi gera betur grein fyrir máli sínu með greinargerð um það hvers vegna hann ætti að koma fyrir nefndina, áður en það væri tekin afstaða til þess hvort af slíkum fundi verði,“ segir Lilja. Lykilatriði sé að í máli Ólafs komi fram nýjar upplýsingar, sem ekki hafi áður komið fram.

Reynist svo vera, þá muni nefndin meta þær upplýsingar og skoða, auk þess sem hún muni funda með höfundum rannsóknarskýrslunnar um Búnaðarbankann.

„Þannig að þetta fer í ákveðið ferli og aðalatriðið er að það séu einhverjar nýjar upplýsingar að koma fram og þá munu að sjálfsögðu vakna spurningar um af hverju þær upplýsingar hafi ekki komið fram áður,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert