Engin eftirmál í kjölfar lekans

Atriði Svölu Björgvinsdóttur hefur verið töluvert breytt frá því á …
Atriði Svölu Björgvinsdóttur hefur verið töluvert breytt frá því á úrslitakvöldinu í Laugardalshöllinni í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin eftirmál, hvorki af hálfu íslenska hópsins né EBU, verða í kjölfar leka á upptöku af grafíkinni sem sýnd verður í atriði Svölu Björgvinsdóttur í Eurovision í Úkraínu. Einar Egilsson, eiginmaður Svölu, uppgötvaði lekann. Um var að ræða stutt myndskeið á YouTube af sviðsæfingu í tónleikahöllinni í Kænugarði. Svala er ekki sjálf komin til Úkraínu en á umræddri æfingu var staðgengill á sviðinu. Grafíkin, sem varpað verður á sviðið í atriði Svölu, var hins vegar áberandi í myndbrotinu en hópurinn hafði vonast til þess að hægt væri að halda leynd yfir henni þar til rétt fyrir keppni. Ekki stendur til að breyta henni af þessum sökum.

Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, segir að um leið og lekans varð vart hafi Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, verið gert viðvart. „Við sendum strax skilaboð út um að þetta hefði fundist og þá fer EBU í málið,“ útskýrir Felix.

Hann segir að haft hafi verið samband beint við þann aðila sem setti myndbrotið inn. Skýringar hans á birtingunni voru nokkuð skondnar. „Hann sagðist vita að hann mætti ekki birta myndskeiðið en honum hafi þótt grafíkin svo flott að honum fannst nauðsynlegt að fleiri sæju hana,“ segir Felix. Svo virðist sem nú sé búið að fjarlægja myndbrotið enda EBU í góðu sambandi við stjórnendur YouTube.

Vilja halda leynd yfir atriðinu

Felix segir að lekinn hafi uppgötvast frekar fljótt og því ekki margir séð myndbrotið. Því skipti birtingin kannski ekki miklu máli. Þá hafi brotið verið mjög stutt. „Auðvitað viljum við helst að þetta verði allt saman frumsýnt í keppninni sjálfri,“ segir Felix. Á aðalæfingum fyrir keppnina eru þó oft teknar myndir sem birtast svo í fjölmiðlum og gefa nasasjón af því sem koma skal.

Felix bendir á að á umræddri æfingu hafi þeir sem halda keppnina verið að fara yfir grafíkina. Keppnishaldarar hverju sinni halda utan um listræna stjórn en fara eftir óskum hvers lands fyrir sig, m.a. um hvernig grafíkin er útfærð. Enginn fulltrúi Íslands var viðstaddur æfinguna en upptaka af henni var send til hvers hóps fyrir sig. Í kjölfarið eru svo gerðar breytingar, oft minniháttar en stundum meiriháttar, á framsetningunni. „Við biðjum um eitthvað ákveðið en vitum svo ekki almennilega hvað við fáum,“ segir Felix. Hann rifjar upp að t.d. hafi grafíkinni við atriði Gretu Salóme í fyrra verið töluvert breytt. 

Hópurinn sáttur og spenntur

Spurður um hvernig Svölu og öðrum í hópnum lítist á útfærslu Úkraínumannanna á grafíkinni segir Felix þau nokkuð sátt. „Við erum rosalega spennt og teljum að við eigum eftir að gera það gott.“ 

Íslenski hópurinn er nú að undirbúa sig fyrir ferðina til Kænugarðs. Hann fer utan þann 30. apríl. Fyrsta æfingin á sviðinu verður 1. maí. Felix segir að áfram verði reynt að halda einhverri leynd yfir atriðinu, t.d. verði fatnaður Svölu ekki afhjúpaður að öllu leyti þá. 

Ísland keppir svo í fyrri undankeppninni 9. maí. Þá verður hulunni endanlega svipt af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert