Kalda loftið streymir til suðurs

Í dag er útlit fyrir suðvestan stinningsgolu eða kalda, en búast má við strekkingi norðvestanlands. Það var kalt á landinu í nótt, en það er hlýrra loft að færast yfir og því fylgir skýjað veður og dálítil væta stingur sér niður hér og þar, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

„Á Suðausturlandi og Austfjörðum verður þurrt og eitthvað sést til sólar, þar gæti hitinn náð í 13-14 stig á morgun þegar hlýja loftið hefur náð að sópa öllu því kalda burt. Það er hæð suður af landinu sem beinir þessu hlýrra lofti til okkar. Af hennar völdum streymir hins vegar kalt loft til suðurs í löndunum austan við okkur og því verður kalt í Skandinavíu í dag og búist er við snjóéljum í Skotlandi,“ segir enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan og vestan 5-15 m/s í dag, hvassast norðvestan til á landinu. Skýjað og dálítil væta af og til, en bjart með köflum suðaustan- og austanlands. Svipað veður á morgun, en dregur úr vindi síðdegis.
Hlýnar smám saman í veðri, hiti 6 til 14 stig á morgun, hlýjast um suðaustanvert landið.

Á miðvikudag:
Suðvestan og vestan 5-13 m/s. Skýjað og dálítil væta af og til, en bjartviðri á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 6 til 12 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á fimmtudag:
Vaxandi sunnanátt, 10-15 m/s á Suður- og Vesturlandi síðdegis og fer að rigna. Hægari vindur norðan- og austanlands og léttskýjað. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast norðaustan til á landinu.

Á föstudag:
Suðaustan 8-15 m/s og rigning, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Austan 8-15 m/s og rigning með köflum, en þurrt norðan- og norðvestanlands. Kólnar lítið eitt.

Á sunnudag og mánudag:
Ákveðin austan- og norðaustanátt. Dálítil rigning eða slydda, en bjart að mestu suðvestan til á landinu. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert