Stóraukinn áhugi á spænskum fasteignum

Strandborgin Alicante á Spáni.
Strandborgin Alicante á Spáni. Ljósmynd/Wikipedia

Áhugi Íslendinga á því að kaupa fasteignir á Spáni hefur aukist verulega. Þetta segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala. „Maður sér það á fasteignavefjunum að það er talsvert mikið framboð af eignum þarna og margir eru að auglýsa áhugaverð kauptækifæri í þessu,“ segir Grétar.

Hann segir íbúðirnar umtalsvert ódýrari en hér á landi en allt fer það eftir svæðum hversu mikill munur er á verði.

Aleigan undir

Grétar nefnir dæmi um eldri konu sem var að leita að íslenskum fasteignasala en hún hugðist selja eignina sína á Íslandi og kaupa sér eign á Spáni í staðinn. Hún vildi hafa allt 100% á tæru því aleigan hennar var undir. „Hún vildi meina að þetta skapaði góðan möguleika fyrir hana á efri árum að búa í þessu loftslagi og eins vildi hún meina að það væri ódýrara að lifa þar og ódýrara að kaupa sér húsnæði þar,“ segir hann.

Íslenskir fasteignasalar hafi milligöngu

Mikilvægt er að hans mati að íslenskir fasteignasalar hafi milligöngu um slík kaup. Dæmi eru um að fólk hafi keypt köttinn í sekknum með því að fara sjálft utan og kaupa eign beint í gegnum þarlendar fasteignasölur. Einnig geta tungumálaerfiðleikar valdið vandamálum.  

„Ef þú kaupir með milligöngu íslensks fasteignasala gilda íslensk lög um fasteignaviðskipti. Fasteignasalinn er með starfsábyrgðartryggingu að baki og hann ber ríkari skyldur til að gæta þinna hagsmuna,“ útskýrir hann.

„Það eru óprúttnir aðilar inni á milli og fólk þarf að gæta að því að vera með belti og axlabönd á sér þegar það er fara í slík viðskipti því það er jafnvel með aleigu sína að veði.“

Afnám gjaldeyrishaftanna skiptir sköpum

Íslenskir fasteignasalar sem starfa við að selja Íslendingum fasteignir á Spáni eru sammála því að kaupendum hafi fjölgað mikið að undanförnu.

„Það hefur verið sprenging síðan í mars. Ég er búinn að vera hérna allan aprílmánuð og við erum að taka á móti stórum hópum og sýna daglega,“ segir Þorbjörn Pálsson, fasteignasali hjá Allt fasteignir, sem var staddur á Spáni þegar mbl.is ræddi við hann.

Skýringuna á þessari aukningu rekur hann til afléttingar gjaldeyrishaftanna. Ekki þurfi lengur að ganga í gegnum þriggja til fimm mánaða ferli til að flytja íslenska peninga til Spánar. Einnig segir hann eldri borgara og öryrkja sækja mikið í íbúðir á Spáni vegna þess að ódýrara sé að lifa þar. Öryrkjar kaupi ódýrustu íbúðirnar sem kosta í kringum 10 milljónir króna og eru þriggja herbergja. Segir hann íbúðir á Spáni um 40% ódýrari en heima á Íslandi.

Opna fasteignasölu á Spáni

Frá því í byrjun mars hafa Þorbjörn og samstarfsfólk hans selt fjórtán íbúðir á Torrevieja-svæðinu á Spáni, þar af tíu í þessum mánuði, sem er mikil breyting frá því á sama tíma í fyrra þegar lítið sem ekkert seldist af slíkum íbúðum.  

Til marks um aukin umsvif á Spáni verður ný fasteignasala opnuð á Spáni um næstu mánaðamót  og verður helmingur hennar í eigu fasteignasölu hans og hinn helmingurinn í eigu spænskra samstarfsmanna.

Meiri pappírsvinna á Spáni

Hann lýsir ferlinu við íbúðakaup á Spáni þannig að það taki tvo til þrjá daga að skoða íbúðir þar. Oft líða svo þrír til fjórir mánuðir áður en fólk ákveður að kaupa íbúðina.

Þá kemur að því að gera tilboð og greiða staðfestingargjald, sem nemur þremur til sex þúsund evrum eftir því hvert verðgildi eignarinnar er. Að því loknu tekur við fjármögnunarferlið á Spáni. Þar er pappírsvinnan meiri en þegar greiðslumat fer fram hérlendis. „Það er svo mikið sem bankarnir skaffa heima sem þú þarft að skaffa bankanum hér en í grunninn eru þetta sömu gögn,“ greinir Þorbjörn frá.

Aðalheiður Karlsdóttir hefur starfað lengi við sölu fasteigna á Spáni.
Aðalheiður Karlsdóttir hefur starfað lengi við sölu fasteigna á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Hagstætt gengi skiptir máli

Aðalheiður Karlsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá Spánareignum/Stakfelli, segir áhugann á fasteignakaupum á Spáni vera mun meiri en hann hefur verið síðustu ár.

Hún nefnir einnig afnám gjaldeyrishafta sem helstu ástæðuna fyrir því, auk hagstæðs gengis. „Það er komið gott framboð af nýbyggingum, flottum íbúðum á fínu verði,“ segir Aðalheiður, sem var einnig stödd á Spáni þegar mbl.is ræddi við hana. Hún telur að hækkanir séu í kortunum vegna aukinnar eftirspurnar. Íslendingar séu ekki þeir einu sem valda hækkuninni heldur einnig kaupendur frá Skandinavíu og Norður-Evrópu.

Að sögn Aðalheiðar velur fólk frekar að kaupa íbúðir í öruggari löndum á borð við Spán en í löndum á borð við Tyrklandi og Túnis þar sem ókyrrð hefur ríkt. Einnig nefnir hún að aukið framboð á flugi hafi mikið að segja varðandi aukinn áhuga Íslendinga.

Kaupendahópurinn að yngjast

Kaupendahópurinn er jafnframt að yngjast frá því sem áður var, að mati Aðalheiðar, og nefnir hún einnig að það sé að færast í vöxt að fólk íhugi að selja íbúðir sínar á Íslandi og kaupa á Spáni í staðinn, þar á meðal eldra fólk. Það treysti á að ódýrt flug geri samskiptin við börn og barnabörn auðveldari. Framfærslukostnaður á Spáni er líka mun lægri á Spáni en á Íslandi.

Fólk skynsamara en fyrir hrun

Aðalheiður hefur starfað við fasteignasölu á Spáni í 18 ár og þekkir því vel hvernig staðan var fyrir hrun. Hún segir söluna núna ekki eins mikla og á þeim tíma. „Það var algjört kaupæði þá. Sem betur fer held ég að fólk sé meira á jörðinni og taki skynsamari skref,“ segir hún.

Einnig finnst henni fólk leggja meiri áherslu en áður á að taka ekki lán fyrir nánast öllu kaupverðinu. „Það vill frekar eiga svolítið eigið fé í eigninni. Fyrir hrun gíraðist fólk upp á lánum. Ætlaði kannski að kaupa eina íbúð en fór svo heim og var þá kannski búið að kaupa fjórar. Það er sem betur fer ekki að gerast núna.“

„Stórglæsileg villa“ á 42 milljónir

Hún segir suma kaupendur horfa á íbúðir á Spáni sem fjárfestingu og ætli jafnvel ekki að búa í þeim nema lítinn hluta af árinu og leigja þær út í staðinn. „Excel-skjalið er hagstæðara hérna úti heldur en heima og ég er að fá fleira fólk sem er að velta þessu fyrir sér.“

Spurð um verðið á íbúðum á Spáni segir hún það að minnsta kosti 40% lægra en heima á Íslandi. Sem dæmi um gott verð nefnir hún hús sem hún var að setja á sölu, „stórglæsilega villu með fjórum svefnherbergjum og fjórum baðherbergjum og stærðarinnar sundlaug og útibar,“ sem kostar 42 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert