Fékk ekki ríkisaðstoð við leigu Gufuness

Gámafélagið er sagt hafa leigt Gufunes hærra verði en markaðsvirði …
Gámafélagið er sagt hafa leigt Gufunes hærra verði en markaðsvirði var á þeim tíma. mbl.is/Brynjar Gauti

Leigusamningur Reykjavíkurborgar við Íslenska Gámafélagið á landi og fasteignum á Gufunessvæðinu var gerður á markaðskjörum. Þetta er mat Eftirlitsstofnunnar EFTA (ESA) sem lauk rannsókn sinni í dag.

„Íslenska Gámafélagið hafði ekki efnahagslegan ávinning af leigusamningum og þar af leiðandi veitti Reykjavíkurborg ekki ríkisaðstoð þegar samningurinn var gerður um Gufunes,“ er haft eftir Sven Erik Svedman, forseta ESA, í fréttatilkynningu frá EFTA.

ESA hóf 2015, eftir að kvörtun barst stofnunni, rannsókn á því hvort um ríkisaðstoð fælist í samningnum.

Reykjavíkurborg eignast fasteignirnar árið 2002 og árið 2005 var gerður leigusamningur, án útboðs, við Íslenska Gámafélagið. Samningurinn fól í sér leigu, hreinsun og umsjón í Gufunesi sem og stuttan uppsagnarfrest. Samningurinn var framlengdur í þrígang þar til honum var sagt upp í maí í fyrra, en borgin seldi í kjölfarið umræddar eignir á Gufunessvæðinu undir kvikmyndaver.

Rannsókn ESA fólst í að meta hvort einkaaðili hefði gert samning á sömu markaðsforsendum og borgin. Skoðaði ESA í þessu skyni m.a. samning um svipaða fasteign borgarinnar sem var leigð út eftir útboð. Sú fasteign var leigð út á talsvert lægra verði en Gufunes. Þá framkvæmdi óháð fasteignasala mat á leigusamningnum sem var gerður árið 2005 og komst að því að leigan sem Íslenska Gámafélagið greiddi var hærri en markaðsvirði á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert