Flugbrautirnar styttast á meðan malbikað er

Starfsmenn vinna að malbikun flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð …
Starfsmenn vinna að malbikun flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að vinnunni verði lokið í haust. mbl.is/RAX

Malbikunarframkvæmdir standa nú yfir á Keflavíkurflugvelli og styttast brautirnar um tíma á meðan unnið er að því að malbika krossgöturnar þar sem þær mætast, sem getur haft áhrif á hversu langan vegakafla vélarnar þurfi til að geta hemlað séu þær fullhlaðnar.

„Þessi malbikunarvinna er bara eitthvað sem þarf að fara í á 20 ára fresti,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi. „En eins og með allar framkvæmdir kynnum við þær með löngum fyrirvara og það er gert í samráði við flugfélögin. Þau vita þá hvernig þjónustan verður í hvaða fasa framkvæmdanna.“

Guðni segir tímabundna styttingu brauta vissulega geta haft áhrif á hemlunarvegalengd flugvélanna fullhlaðinna, en að það geti einnig vindstyrkur og hálka á braut gert.

Vinna við malbikun brautanna hófst síðasta sumar þegar byrjað var að malbika norður- og suðurbrautina. Byrjað var á að ljúka við þá vinnu þegar framkvæmdir hófust á ný nú í vor „Í sumar verður austur- vesturbrautin síðan malbikuð,“ segir Guðni og kveðst vonast til að þeim framkvæmdum ljúki nú í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert