„Það þarf að finna lausn á þessu“

Laugarvatn í Bláskógarbyggð.
Laugarvatn í Bláskógarbyggð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óvissa er um rekstur íþróttamannvirkja á Laugarvatni ári eftir að kennsla íþróttafræði við Háskóla Íslands var flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Menntaskólinn við Laugarvatn hefur verið með samning um afnot af íþróttahúsi og sundlaug á svæðinu. Að öllu óbreyttu mun Háskóli Íslands hætta rekstri á mannvirkjunum 1. júní næstkomandi og þar með lokar sundlaugin.  

Ekki liggur fyrir hver tekur við rekstri á íþróttamannvirkjunum þrátt fyrir fjölmarga fundi milli menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins meðal annars við sveitarstjórnarmenn í Bláskógarbyggð, Samband sunnlenskra sveitarfélaga og skólanefnd Menntaskólans við Laugarvatn.  

„Það þarf að finna lausn á þessu. Ákjósanlegast er að skólinn og sveitarfélagið geti haldið áfram að nota húsnæðið,“ segir Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra. Hann bætir við að það hafi verið óheppilegt að ekki hafi verið fundin lausn á málinu um leið og Háskóli Íslands hætti að kenna íþróttir á Laugarvatni.

Kristján bendir á að Háskóli Íslands mun líklega skila eignunum til ríkiseigna sem hafa umsjón með eignum ríkisins í umboði fjármálaráðuneytisins.   

Ólíðandi seinagangur

„Þetta er mikil óvissa og erfitt fyrir okkur að skipuleggja næsta skólaár þegar við vitum ekki hver staðan verður,“ segir Gunnar Þorgeirsson formaður skólanefndar Menntaskólans við Laugarvatni. Hann furðar sig á seinaganginum á viðræðunum. Skólinn hefur hvorki fengið svör frá Háskóla Íslands né ríkisvaldinu um það við hvern eigi að semja um afnot á íþróttahúsinu fyrir næsta skólaár.  

Á skólanefndarfundi Menntaskólans á Laugarvatni var samþykkt bókun á mánudaginn sl. Í henni segir meðal annars: „Skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni lýsir þungum áhyggjum yfir því að enn er það óleyst hver mun verða húsráðandi núverandi Íþróttahúss og sundlaugar Háskóla Íslands á Laugarvatni þar sem Íþróttafræðasetur HÍ hefur verið lagt niður.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert