Tölva Póstsins segir nei

„Þetta fer að verða eins og í gamla daga. Maður …
„Þetta fer að verða eins og í gamla daga. Maður sendi póstinn til útlanda með haustskipum og fékk svo svar með vorskipum,“ segir maður sem er mjög ósáttur við að þurfa að fara á næsta pósthús til að tilkynna um breytt heimilisfang. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Þetta fer að verða eins og í gamla daga. Maður sendi póstinn til útlanda með haustskipum og fékk svo svar með vorskipum,“ segir maður sem er ósáttur við að þurfa að fara á næsta pósthús til að tilkynna um breytt heimilisfang svo hann fái póstinn sinn sendan á nýjan verustað sinn.

Fyrr í þessum mánuði ákvað Íslandspóstur að loka fyrir vefsíðu þar sem hægt var að skrá breytingar á heimilisföngum innlands. Aðgerðin var einföld, aðeins þurfti að slá inn nafn, kennitölu og heimilisföng. Þó að engar kvartanir hefðu borist um misnotkun á þessu einfalda kerfi taldi Íslandspóstur nauðsynlegt að loka fyrir þennan möguleika og beina fólki þess í stað á næsta pósthús.

Unnið er nú að því að setja upp nýtt kerfi á vef Íslandspósts þar sem sérstakrar innskráningar verður krafist og öryggi þar með aukið. Brynjar Smári Rúnarsson, for­stöðumaður markaðs- og upp­lýs­inga­mála hjá Póst­in­um, segir að verkefnið muni taka einhvern tíma. Hann getur ekki svarað því hvenær það nákvæmlega verði, hvort að það verði eftir vikur eða mánuði.

Verður að mæta í eigin persónu

Maður sem stendur í búferlaflutningum utan af landi hafði samband við mbl.is og sagðist furða sig á þessu fyrirkomulagi. Nú væri árið 2017 og flest allt hægt að gera í gegnum netið. Nema að láta senda sér póstinn á nýtt heimilisfang. Hann hefur haft samband við Póstinn en allt hefur komið fyrir ekki. Hann fær ekki póstinn á nýja heimilisfangið nema að mæta í eigin persónu á pósthús. 

Hann fékk meðal annars þau svör að ekki mætti staðfesta flutninginn á netinu eða í gegnum síma. „Computer (eða yfirstjórn Íslandspósts) says no.“

Verið að vinna að úrbótum

Brynjar Smári hjá Póstinum segist ekki vita til þess að fólk hafi kvartað eftir að fyrirkomulaginu var breytt í byrjun apríl. „Við erum að vinna í þessu, vonandi verður þessu breytt sem fyrst. Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem eru í gangi hjá hugbúnaðardeildinni hjá okkur.“

Spurður hvort ekki hefði verið hægt að hafa gamla fyrirkomulagið á netinu þar til hið nýja yrði tilbúið til notkunar svarar Brynjar Smári: „Okkur fannst tímabært að taka þetta út, já. En við vinnum þetta eins hratt og við getum og reynum að koma þessu eins hratt í loftið og við getum.“

Hann segir að ástæða þess að Pósturinn taldi nauðsynlegt að loka á gömlu leiðina hafi verið sú að ekki var hægt að tryggja öryggi hennar. „Áhættan á misnotkun var of mikil og það hefði verið óábyrgt af okkur að halda henni opinni áfram undir þeim kringumstæðum.

Það fyrirkomulag sem er núna í gildi mun ekki vara í langan tíma og við skiljum óánægju viðskiptavina á því. Við leggjum allt kapp á að koma þessu í loftið hratt og örugglega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert