„Geggjað gaman“ að vinna Skólahreysti

Eintóm gleði með sigurinn. Lið Síðuskóla: Hulda Karen, Embla Dögg, …
Eintóm gleði með sigurinn. Lið Síðuskóla: Hulda Karen, Embla Dögg, Eygló, Guðni Jóhann, Ragúel Pino og Unnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var bara geggjað gaman,“ segir Ragúel Pino Alexandersson, einn fjögurra keppenda fyrir hönd Síðuskóla í Skólahreysti. Liðið sigraði í úrslitakeppninni í Laugardalshöllinni í gær og mikil gleði ríkir í skólanum og víðar á Akureyri vegna þess. Embla Dögg Sævarsdóttir, annar liðsmaður Síðuskóla, tekur í sama streng. „Þetta var mjög gaman.“

Auk þeirra skipa Eygló Ástþórsdóttir og Guðni Jóhann Sveinsson liðið. Tveir varamenn, Unnar og Hulda Karen, voru svo til taks.

Spennufall eftir svefnlitla nótt

Keppninni lauk ekki fyrr en seint í gærkvöldi og lagði hópurinn af stað norður fljótlega eftir það. Hann var því ekki kominn til Akureyrar fyrr en undir morgun. Liðið fékk frí í fyrstu tímunum í skólanum í morgun til að sofa út. „Já, ég er svolítið þreytt, bæði eftir keppnina og svefnlitla nótt,“ segir Embla í samtali viðmbl.is. Hún segist vera í nokkurs konar spennufalli. Nokkuð stress hafi fylgt því að keppa í Laugardalshöllinni í gær. En fyrst og fremst er hún ánægð og glöð með sigurinn.

Embla Dögg og Ragúel Pino í viðtali við RÚV eftir …
Embla Dögg og Ragúel Pino í viðtali við RÚV eftir að hafa sett Íslandsmet í hraðaþrautinni. mbl.is/Árni Sæberg

Ragúel og Embla slógu Íslandsmet í Skólahreysti í hraðaþrautinni; fóru brautina á 2,03 mínútum. Þau eru bæði miklir íþróttamenn; Ragúel æfir frjálsar og Embla fimleika. Embla segir þau bæði handsterk sem hafi mögulega gert gæfumuninn þegar kom að hraðaþrautinni þar sem m.a. þarf að hífa sig upp kaðal og turn. Ragúel segir mjög gaman að hafa sett metið.

Hann er hins vegar ekki óvanur því að slá Íslandsmet. Hann á fjölmörg slík met í sínum aldursflokki í frjálsum íþróttum. Ragúel er þó hógværðin uppmáluð og vill ekki gera mikið úr því er blaðamaður spyr hann út í afrekin. Mbl.is gróf hins vegar upp metaskrá hans hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands og hún er nokkuð löng eins og sjá má hér. 

Borða hollt og æfa vel

Embla og Ragúel voru bæði að taka þátt í Skólahreysti í annað sinn. Þau eru nú í tíunda bekk. Þau segjast hafa undirbúið sig vel, bæði með líkamlegri þjálfun og góðu og hollu mataræði. Í fyrra höfnuðu þau í öðru sæti. Ragúel segir að í ár hafi markið verið sett á sigur. Embla tekur undir það. Þau hafi fengið upplýsingar um að lið þeirra hafi verið hæst að stigum eftir undankeppnirnar. „Þá fór maður að trúa því að sigur væri möguleiki,“ segir Embla.

En hafa þau tíma til að læra vegna íþróttaæfinga og undirbúnings fyrir Skólahreysti? „Ja, það er erfitt en maður nær því,“ segir Ragúel.

Vonast eftir íþróttastyrk

Embla ætlar að sækja um skólavist í Menntaskólanum á Akureyri eftir að grunnskólanáminu lýkur í vor. Hún er svo staðráðin í því að halda áfram að æfa fimleika.

Ragúel stefnir á að fá skólastyrk í til náms í Bandaríkjunum. Þar sé aðbúnaður til íþróttaæfinga oftast betri en á Íslandi. Hann er fæddur þar í landi og er því bæði með íslenskan og bandarískan ríkisborgararétt sem mun auðvelda honum umsóknarferlið. Hann segir frjálsar íþróttir eiga hug sinn allan og sé því ekki búinn að ákveða hvað hann langi að læra í framtíðinni.

Stuðningsmenn Síðuskóla fagna með liði sínu í Laugardalshöllinni.
Stuðningsmenn Síðuskóla fagna með liði sínu í Laugardalshöllinni. Árni Sæberg

Mikil gleði ríkir að vonum í Síðuskóla með sigurinn. Embla segir að yngri nemendurnir hafi meðal annars samglaðst þeim mjög. Hún segist sjálf hafa sett sér það markmið að keppa í Skólahreysti fyrir hönd skólans síns þegar hún var lítil. „Ég hef alltaf fylgst mjög vel með þáttunum í sjónvarpinu og langað til að keppa. Þannig að þetta er gamall draumur að rætast,“ segir hún hlæjandi.

Mikill metnaður og góður andi

Reiner Jessen, íþróttakennari í Síðuskóla, segir að liðið hafi verið duglegt að æfa og hafi nú uppskorið árangur erfiðis síns. Síðuskóli hefur síðustu fimm ár komist í úrslitakeppni Skólahreystis og æfingar í anda keppninnar séu fléttaðar inn í íþróttakennslu allra nemenda skólans. Að hausti eru svo allir nemendur í 9. og 10. bekk, sem áhuga hafa, hvattir til að taka þátt í æfingum fyrir Skólahreysti. Æft er í frímínútum með leiðsögn kennara og svo æfa unglingarnir sig einnig utan skóla að vild.

Þetta fyrirkomulag er mjög hvetjandi að sögn Reiners. Misjafnt er á milli ára hversu margir eru með á æfingunum. Það er ekki fyrr en eftir áramót sem liðið er svo valið úr hópnum og koma unglingarnir sjálfir að því. „Það er ekki fyrirfram ákveðið hverjir komast í liðið, það eiga allir séns.“ Reiner segir að á æfingatímabilinu bæti hópurinn sig mjög mikið. „Við höfum séð alveg ótrúlegar bætingar.“

Ætluðu sér að vinna

Reiner er mjög ánægður með tilkomu Skólahreystis. „Ég hef kennt í 27 ár og ég hef alltaf haft mikla trú á ungu fólki. Það eflir krakka að heyra af og taka þátt í hinu jákvæða. Í Skólahreysti er hið jákvæða dregið fram og það finnst mér frábært.“

Reiner segir krakkana metnaðargjarna og að andinn í hópnum í vetur hafi verið góður. Ekki hafi góður árangur liðsins á síðasta ári spillt fyrir. Því hafi verið æft stíft í ár og „þau ætluðu sér að vinna,“ segir hann.

Og það tókst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert