LSH kannast ekki við tölur Þorsteins

„Vandinn er að Landspítali hefur ekki fengið allt þetta fjármagn …
„Vandinn er að Landspítali hefur ekki fengið allt þetta fjármagn sem ráðherra gerir í sinni greiningu ráð fyrir að hafi verið veitt til spítalans á árunum 2016 og 2017,“ segir í fréttinni. „Þessi fullyrðing ráðherra, sem má segja að sé meginskilaboð hans í viðtalinu, byggir því á gögnum sem eru ekki rétt og skeikar þar allt að 8,5 milljörðum.“ mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn kannast ekki við þær tölur sem lagðar eru fram í viðtali Morgunblaðsins við félags- og jafnréttisráðherra í dag. Meðfram viðtalinu var birt greining hans á fjárveitingum til Landspítala síðustu ár, samkvæmt ársreikningum spítalans og næstu fimm ár, samkvæmt tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2018-2022. 

Á vef spítalans eru lagðar fram athugasemdir við greiningu ráðherra. Landspítali kannast ekki við þær tölur sem lagðar eru til grundvallar greiningu ráðherra fyrir árin 2016 og 2017 og hefur hin meinta hækkun ríkisframlags til Landspítala frá árinu 2015 ekki átt sér stað.

„Ríkisframlag til LSH, samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2016 var 52,6 milljarðar sem á verðlagi 2017 er nálægt 56 milljörðum. Í greiningu ráðherra er ríkisframlagið til Landspítala sagt 62 milljarðar á árinu 2016 að meðtöldum kostnaði við nýbyggingar NLSH (1,8 milljarðar). Hér skeikar því 4-6 milljörðum,“ segir í frétt Landspítalans.

Þá er ríkisframlag til LSH samkvæmt fjárlögum 2017 56,9 milljarðar. Í greiningu ráðherra er þessi tala birt sem 67 milljarðar. „Fjárveiting til byggingar sjúkrahúss á lóð Landspítala árið 2017 er 1,5 milljarðar samkvæmt fjárlögum. Hér skeikar því um 8,5 milljarða,“ segir í fréttinni.

Þá er vitnað í greiningu ráðherra þar sem „raunútgjöld 2006 uppfærð m.v. lýðfræðilega þróun“ og ályktað „að búið er að endurreisa fjármögnun spítalans úr þeirri miklu lægð sem varð hér eftir efnahagshrun“. Hækkunin virðist nema allt að 2% á ári sem er í ágætum takti við raunþróun eftirspurnar á Landspítala.

„Vandinn er að Landspítali hefur ekki fengið allt þetta fjármagn sem ráðherra gerir í sinni greiningu ráð fyrir að hafi verið veitt til spítalans á árunum 2016 og 2017,“ segir í fréttinni. „Þessi fullyrðing ráðherra, sem má segja að sé meginskilaboð hans í viðtalinu, byggir því á gögnum sem eru ekki rétt og skeikar þar allt að 8,5 milljörðum (sem nemur um 15% af raunframlagi ríkis til spítalans árið 2017).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert