Ýmislegt kemur upp úr Ævintýrakistunni

Líf og fjör. Allir ættu að geta skemmt sér vel …
Líf og fjör. Allir ættu að geta skemmt sér vel á barnaleikritinu þar sem heilmikið gengur á og mikið er sungið.

Í samfélaginu á Sólheimum í Grímsnesi leggjast allir á eitt við uppsetningu á nýju íslensku barnaleikriti, Ævintýrakistunni. Kokkurinn samdi tónlistina, flytur hana, syngur og leikur og leikstjórinn samdi verkið með íbúa Sólheima í huga.

„Langflestir þeirra heimilismanna sem eru með í uppsetningunni núna hafa verið með áður, en það eru líka nokkrir nýir liðsmenn, sem er mjög ánægjulegt. Það hefur verið virkilega gaman fyrir mig að taka þátt í þessu og ég er mjög ánægður með þessa sýningu,“ segir Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson, leikstjóri og höfundur Ævintýrakistunnar, nýs barnaleikrits sem Leikfélag Sólheima sýnir um þessar mundir.

„Ég er að leikstýra öðru sinni núna á Sólheimum, í fyrra settum við upp Galdrakarlinn í Oz og þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Að leikstýra heimilisfólkinu á Sólheimum er frábrugðið að því leyti að geta fólks er eðli málsins samkvæmt mismunandi til að læra texta utan að. Fólkið er með mismunandi fatlanir og maður þarf að sníða sér stakk eftir vexti, en það er skemmtilegt verkefni. Í fyrra aðlagaði ég leikritið um Galdrakarlinn í Oz að þessum hópi, bætti við sögumanni, dró úr textanum og annað slíkt, en þetta árið samdi ég sjálfur verk með þau í huga. Í Ævintýrakistunni reyndi ég að skrifa hlutverk handa hverjum og einum, sem hentar þeim.“

Búningarnir eru heldur betur skrautlegir og leikararnir kátir.
Búningarnir eru heldur betur skrautlegir og leikararnir kátir.


Húmorinn liggur í leiknum

Ævintýrakistan er byggð á þremur þekktum Grimms-ævintýrum, Gullgæsinni, Stígvélaða kettinum og Brimarborgarhljómsveitinni. „Mér finnst þessi ævintýri svo fyndin og ég sá fyrir mér að það væri hægt að leika sér svolítið með þau í leikriti, að það þyrfti ekki endilega að vera fyndið í orðum heldur gera meira út á sprellið. Í Gullgæsinni kemur til dæmis fyrir þessi halarófa sem er fyndið að leika sér með, og hin misheppnaða Brimarborgarhljómsveit er skrautleg og lítur stórt á sig, svo þetta býður upp á ýmislegt. Þegar ég var að semja leikritið hugsaði ég mér að koma með húmorinn í leik, frekar en að vera með mikið orðagrín,“ segir Guðmundur og bætir við að fyrir vikið sé líf og fjör á sviðinu allan tímann. „Við erum líka með frumsamda tónlist í leikritinu eftir kokkinn á Sólheimum, Þröst Harðarson. Það er mikill fengur að honum, hann sá um allan tónlistarflutning við leikritið í fyrra, en núna samdi hann öll lögin, flytur þau og syngur, auk þess sem hann leikur stór hlutverk í sýningunni. Ég samdi söngtexta við Ævintýrakistuna og henti í hann og lögin voru nánast tilbúin daginn eftir, hann var ekki lengi að þessu. Enda er hann reynslubolti í tónlistinni, hefur meðal annars mikið spilað með Heiðari í Botnleðju og þeir gáfu saman út barnadiskinn Skrímslin.“

Fólkið á Sólheimum er virkjað í uppsetningu leikritsins, rúmur helmingur íbúa og starfsmanna koma með einum eða öðrum hætti að henni.

Guðmundur Lúðvík ásamt syni sínum Jóhanni Pálma.
Guðmundur Lúðvík ásamt syni sínum Jóhanni Pálma.


„Hátt í þrjátíu leikarar eru í sýningunni, bæði heimilismenn og starfsmenn, og svo þarf að sinna hinum ýmsu öðrum verkum. Allir leggjast á eitt og útkoman er frábær.“

Leikfélag Sólheima sýnir nýtt íslenskt barnaleikrit, Ævintýrakistuna, tvær síðustu sýningar eru nk. laugardag 29. apríl og svo lokasýning sunnudaginn 30. apríl. Sýningar eru í Íþróttaleikhúsinu á Sólheimum, hefjast kl. 14 og standa í klukkutíma. Miðasala í s. 847-5323 eða á netfangi: solheimar@solheimar.is Opið verður í kaffihúsinu Grænu könnunni og versluninni Völu á sýningardögum. Allir eru hjartanlega velkomnir. www.solheimar.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert