Vantar 10 milljarða í reksturinn

Opinn fundur í velferðarnefnd um fjármálaáætlun 2018-2022. Gestir fundarins, þau …
Opinn fundur í velferðarnefnd um fjármálaáætlun 2018-2022. Gestir fundarins, þau María Heimisdóttir og Ólafur Baldursson, ræddu málefni Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, ítrekaði að samanburðartölur á fjárveitingu til Landspítala við Norðurlöndin í fjármálaáætlun ríkisins væru ekki sambærilegar, á opnum fundi í velferðarnefnd um fjármálaáætlun 2018-2022. 10 milljarða vantar í reksturinn á næsta ári.

„Við erum ekki að bera saman sambærilega hluti því ekki er unnið með sambærilega tölur. Restin af áætluninni stendur og fellur með þessu ef röng mælistika er notuð. Það getur ekki verið vilji stjórnvalda að leggja fram ósambærileg gögn. Þetta hljóta að vera mistök,“ segir María og bendir á að fjármálaáætlunin endurspegli ekki þá fjármuni sem eru notaðar til heilbrigðisþjónustu.

Í því samhengi bendir hún á að ríkisreikningar hér á landi hafa ekki verið lagðir fram með sama hætti og er gert er á hinum Norðurlöndunum. Fyrir vikið er samanburður erfiður. Þetta standi til bóta því ný lög um ríkisreikninga tóku gildi nýverið. 

Til samanburðar við fjármögnun til ríkisspítala í Svíþjóðar benti hún á að fjármagn til ríkisspítalans væri með öðrum hætti m.a. fengi hann fjármagn einnig frá tilteknum landssvæðum eða lénum. 

„Að spara aurinn og kasta krónunni“

María benti á að það vantar 10 milljarða króna inn í reksturinn fyrir árið 2018. Í gær sendi Land­spít­al­inn frá sér yfirlýsingu þar sem hann kann­ast ekki við þær töl­ur sem voru lagðar fram í viðtali Morg­un­blaðsins við fé­lags- og jafn­rétt­is­ráðherra. Meðfram viðtal­inu var birt grein­ing hans á fjár­veit­ing­um til Land­spít­ala síðustu ár, sam­kvæmt árs­reikn­ing­um spít­al­ans og næstu fimm ár, sam­kvæmt til­lögu til þings­álykt­un­ar um fjár­mála­áætl­un 2018-2022. „Við leiðréttum þann misskilning sem þar kom fram,“ segir María og vitnaði meðal annars í endurskoðaða ársreikninga sem voru notaðir við útreikning Landspítala.  

 „Við erum að spara aurinn og kasta krónunni,“ segir María og bendir á að það vanti fjármagn inn í áætlunina. Hún bendir hins vegar á að það sé hægt að forgangsraða með öðum hætti þeim fjármunum sem eru á áætluninni og nefnir sértaklega á tvær þúsund milljónir króna sem eru merktar til Sjúkratrygginga Íslands til að veita þjónustu erlendis. 

Ekki forgangsraðað fyrir almenning heima 

„Almenningur vill þjónustu hér heima. Það er undarlegt að tvöfalda þessa fjárhæð þegar það er hægt að forgangsraða þessari fjárhæð hér heima fyrir almenning,“ segir María. Það er alltaf einhver hluti sjúklinga sem þurfi á lífsbjargandi læknisþjónustu erlendis en eftirspurnin er ekki svona mikil, að sögn Maríu.  

„Það er einfaldlega verið að forgangsraða frá heilbrigðisstofnunum og Landspítala,“ segir María aðspurð um samninga við sérfræðilækna. Í því samhengi bendir hún á skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey á rekstri Landspítalans árið 2016 en í henni kemur fram að ekki skuli bæta í samning við sérfræðilækna nema að vel athuguðu máli og skilgreina þjónustuframboðið. Þvert ofan í þær ráðleggingar er verið að auka fé til þeirra, að sögn Maríu. 

Hún segir einkennilegt að sömu skattgreiðendur greiði sömu laun sérfræðilækna. „Þegar hann fer yfir götuna þá er annar taxti sem hann þarf að greiða. Þetta hefði þótt sérstakt einhvers staðar,“ segir María. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert