„Skyggnið var akkúrat ekki neitt“

Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í dag.
Flugvél Primera Air á Keflavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Víkurfréttir

„Við enduðum alveg í 90 gráðu stefnu út af flugbrautinni,“ segir Margrét Eiríksdóttir í samtali við mbl.is en hún var einn af farþegum farþegaflugvélar flugfélagsins Primera Air sem lenti í erfiðleikum í lendingu á Keflavíkurflugvelli í dag. Fór flugvélin út af flugbrautinni við enda hennar og segir Margrét að líklega hafi flugstjórinn áttað sig á því að vélin væri á leið út af brautinni og þá tekið 90 gráðu beygju. „Skyggnið var akkúrat ekki neitt.“

Margrét segir að stjórnunin um borð í flugvélinni hafi verið góð en farþegarnir þurftu að bíða í vélinni í rúman klukkutíma áður en þeir voru fluttir með rútum yfir í flugstöðina. „Það var ein íslensk flugfreyja um borð og hún stýrði þarna eiginlega bara eins og herforingi og sagði okkur að sitja kyrrum og bíða. Það var auðvitað eðlilegt að fólki hafi viljað standa upp og faðma næsta mann eða kanna hvort væri í lagi með aðra farþega í flugvélinni.“

Þetta hafi tekið talsverðan tíma. Þeim hafi verið tjáð að viðbragðsaðilar, slökkvilið og aðrir, væru á leiðinni á staðinn. „Síðan fórum við með rútum yfir í flugstöðina eftir rúman klukkutíma. Það var gefin von um að farangurinn okkar kæmi og biðum við eftir því. Þá komu þarna fulltrúar frá Rauða krossinum og buðu upp á áfallahjálp. Þeir dreifðu blaði meðal annars og á því voru ýmis góð orð sem urðu mér ákveðin huggun. En ég er enn nötrandi.“

Farþegar fara frá borði í dag.
Farþegar fara frá borði í dag. Ljósmynd/Margrét Eiríksdóttir

Margrét segir að þetta hafi verið heilmikið áfall. Sjálf hafi hún aldrei verið viðkvæm fyrir ókyrrð í lofti eða nokkru slíku. „Það var bara þessi langi tími. Flugvélin sveimaði þarna í loftinu og reyndi tvisvar að koma inn til lendingar áður en hún lenti loksins. Maður vissi bara að það var eitthvað að. Þegar þessi skellur síðan kemur þegar hún lendir loksins sem endar síðan með þessu 90 gráðu horni datt hjartað eitthvað lengra niður en það á að vera.“

Mannskapur hafi tekið á móti farþegum í flugstöðinni og afhent þeim vatn og súkkulaði. „Síðan beið fólkið eftir farangrinum. Það kom í ljós að þeir áttu ekki eins auðveld með að ná í farangurinn okkar og þeir höfðu ætlað sér. Þannig að þeim sem vildu það var boðið að fara fram og hitta ættingja og koma svo inn aftur. En þá var komið í ljós að það yrði lengri bið eftir farangri en þeir sögðu. Þannig að ég ætla bara að sækja farangurinn á morgun.“

Margrét ber viðbragðsaðilum vel söguna. Farþegar hafi verið varaðir ítrekað við að fara varlega niður tröppurnar á leið úr flugvélinni þar sem þær væru hálar. „Síðan biður þeir þarna slökkviliðsmennirnir og lá við að þeir leiddu okkur á milli flugvélarinnar og rútunnar ef vera skildi að fólk væri á hálum skóm. Því það var ansi mikill snjór. „En þetta fór allt vel þannig að þetta var góður endir á skrítinni flugferð,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert