Vantar 100 hjúkrunarfræðinga

Opinn fundur í velferðarnefnd um fjármálaáætlun 2018-2022. Gestir fundarins koma …
Opinn fundur í velferðarnefnd um fjármálaáætlun 2018-2022. Gestir fundarins koma frá Landspítalanum, María Heimisdóttir og Ólafur Baldursson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að minnsta kosti 100 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á Landspítalanum.  „Við höfum áhyggjur af málinu í heild sinni. Þetta hefur alvarleg áhrif til skemmri og lengri tíma,“ segir Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum. Þetta kom fram á opnum fundi velferðarnefndar vegna fjármálaáætlunar 2018 - 2022. 

Mönnun lækna á Landspítalanum hefur skánað eftir síðasta kjarasamning lækna. Hins vegar þurfi alltaf að vinna markvisst í því að laða til starfa sérhæft starfsfólk. Mikil samkeppni er um heilbrigðisstarfsfólk og því þurfi kaup og kjör að vera samkeppnishæf, segir Ólafur. „Við þurfum líka að skoða annað en bara laun þegar við erum að tala um samkeppni eins og aðstöðu,“ segir Ólafur.

Í því samhengi bendir hann á að það séu að verða kynslóðaskipti í því hvernig fólk vill vinna í dag. Fólk vill ekki lengur vinna jafnvel 200 yfirvinnutíma á mánuði og taka langar vaktir eins og tíðkaðist. Það er ekki lengur boðlegt sem betur fer, segir Ólafur.  

María tók í sama streng. Hún benti á að hún skildi vel þá hjúkrunarfræðinga sem kysu að starfa ekki á Landspítalanum og veldu að starfa annars staðar þar sem þeir fengju jafnvel um hundrað þúsund krónur hærri laun fyrir jafnvel minna flókna vinnu. „Ef ég væri nýútskrifuð með tvö börn á leikskóla þá munaði mig um þennan pening,“ segir María en tók fram að það væri samt ekki gott ef fólk gæti ekki unnið við það sem það menntaði sig til að gera og þetta þyrfti að laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert