Óttast brottvísun eftir helgi

Sabre-fjölskyldan og Sema Erla Serdar (t.h.) reyna að knýja fram …
Sabre-fjölskyldan og Sema Erla Serdar (t.h.) reyna að knýja fram efnislega málsmerðferð. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Sabre-fjölskyldan stendur frammi brottvísun úr landi og verður líklega send aftur til Íraks þar sem framtíð hennar er óljós. Þau höfðu verið á flótta í ár áður en þau komu til Íslands fyrir ári síðan til að sækja um hæli. Á mánudag fengu þau svo skilaboð um að Útlendingastofnun hefði hafnað umsókn þeirra. 

Michelle Bird, listakona í Borgarnesi, stendur fyrir undirskriftarsöfnun þar sem skorað er á formann kærunefndar útlendingamála að veita Sabre-fjölskyldunni hæli í Íslandi. Hún kynntist fjölskyldunni síðasta sumar þegar þau voru bjuggu öll á Bifröst. 

Michelle Bird og Zara Bejan. Michelle er í lopapeysu sem …
Michelle Bird og Zara Bejan. Michelle er í lopapeysu sem Zara prjónaði handa henni. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

„Við höfðum heyrt af flóttafjölskyldum á Bifröst og ákváðum a heimsækja þær síðasta sumar. Þegar ég hitti þau náðum við góðri tengingu í gegnum krydd. Þau voru himinlifandi að sjá sumac-kryddið sem ég kom með og buðu mér í matarboð. Þetta samband þróaðist síðan í vináttu,“ segir Michelle.

Fjölskyldufaðirinn Bejan sýndi Michelle myndir af því hvað væri að gerast fyrir Kúrda í Írak og sagði það vera mikinn létti að vera á öruggum stað, að þurfa ekki að horfast í augu við dauðann á hverjum degi. 

„Í síðustu viku fékk ég skilaboð frá fjölskyldunni að umsókn þeirra hefði verið hafnað. Maður getur ekki gert sér í hugarlund hvernig er að fara aftur til Íraks. Ég talaði við Kúrda sem búa á Íslandi og þeir sögðu mér að þau yrðu líklega tekin af lífi, það yrði litið á þau sem glæpamenn. Þau lifa í stöðugum ótta yfir því að fá símtal um að þeim verði vísað úr landi og þá veit maður ekki hvað tekur við.

Enda líklega í Írak

Fjölskyldan hefur fengið tvær synjanir. Útlendingastofnun hafnaði því að taka málið til efnislegrar skoðunar og kærunefnd útlendingamála tók undir þá niðurstöðu. Ástæðan er að þau koma frá Noregi og ræður Dyflinnarreglugerðin því för. Þar fengu þau neitun um alþjóðlega vernd en ákvörðunin byggðist á því að í Írak vær öruggt svæði. Í úrskurði Útlendingastofnunar á Íslandi segir að fjölskyldan skuli fara til Noregs til að fá réttláta málsmeðferð en Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur, segir að það sé ólíkleg niðurstaða. 

„Ef þau verða send til Noregs fá þau jafnvel ekki að fara inn í landið, þau gætu verið send beint til Íraks. Norsk yfirvöld eru hreinlega hætt að veita Írökum vernd í landinu,“ segir Sema. Fjölskyldan getur áfrýjað úrskurði Útlendingastofnunar til dómstóla en það er ekki líklegt til árangurs.

Geir Konráð Theodórsson og systurnar tvær.
Geir Konráð Theodórsson og systurnar tvær. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir

Vill tryggja dætrum sínum framtíð

Fjölskyldan býr í Hafnarfirði og þar sækja dæturnar tvær skóla. Zhala Bejan er sautján ára gömul en Zhakau Bejan er tvítug og hafa þær stundað nám frá því að þær komu til landsins. Sema Erla segir að endalaus flótti og óvissa hafi tekið sinn toll. 

„Yngri dóttirin, Zahal, er búin að þróa með sér mikið þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun eftir tvö ár á flótta. Manni finnst ótrúlegt að fólk í svona viðkvæmri stöðu fái ekki efnilega meðferð. Við vitum að fólk leggur ekki í svona ferðalag nema að hafa ríka ástæðu,“ segir Sema. Hún segir fjölskylduföðurinn áhyggjufullan, hann sé ekki í leit að neinu nema öruggum stað fyrir fjölskyldu sína. 

„Fjölskyldufaðirinn sagði við mig að það eina sem hann biðji um sé að þau megi vera hérna og að dætur sínar fái tækifæri til að byggja sér líf og framtíð.“ 

Geir Konráð Theodórsson og Bejan Shakr Sabre.
Geir Konráð Theodórsson og Bejan Shakr Sabre. mbl.is/Guðrún Vala Elísdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert