Íslendingar, hjólið meira!

Bosse Hedberg býr að þremur hjólum á Íslandi en á …
Bosse Hedberg býr að þremur hjólum á Íslandi en á mun fleiri heima í Svíþjóð. Kristinn Magnússon

Bosse Hedberg, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, hélt uppteknum hætti eftir að hann kom hingað fyrir fjórum árum og hjólar í vinnuna á morgnana; rétt eins og hann gerði í Stokkhólmi, Strassborg og Sarajevo, þar sem hann bjó áður og starfaði. 

Hedberg gerir gott betur en að hjóla í vinnuna; hann stígur á bak álfáknum klukkan 6 á hverjum einasta virkum morgni og hjólar vestur á Gróttu – sér til heilsubótar og yndisauka. Sú ferð tekur um klukkustund, fram og til baka, og Hedberg kemur stuttlega við heima áður en hann skiptir um hjól og heldur sem leið liggur í vinnuna. Þegar ég spyr hvort hann hvíli ekki um helgar kemur undrunarsvipur á Hedberg. „Nei, þá hjóla ég mun lengri leið.“

Hjólreiðar eru sumsé lífsstíll hjá Bosse Hedberg og ekki að undra að hann fagni átakinu Hjólað í vinnuna, sem hrint verður af stokkunum í fimmtánda sinn í næstu viku. „Flestir starfsmenn sendiráðsins munu taka þátt og þannig leggjum við okkar litla lóð á vogarskálarnar. Hjólað í vinnuna er frábært framtak og hvatning fyrir okkur öll.“

Hjólreiðar eru ekki bara góðar fyrir heilsuna, heldur ekki síður umhverfið, eins og Hedberg bendir á, en Svíar eru sem kunnugt er í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og setja sér sífellt háleitari markmið í þeim efnum, eins og að verða jarðefnaeldsneytislaust land. „Ég er mjög stoltur af umhverfispólitík sænskra stjórnvalda og tel hana til eftirbreytni. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga, eins og aðrar þjóðir, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en við skulum hafa í huga að möguleikar ykkar að draga úr nettólosun eru þrengri en margra annarra landa, þar sem skógarnir drekka koltvísýringinn að einhverju leyti í sig. Þið búið ekki að stórum skógum og enda þótt þið séuð dugleg að gróðursetja tré mun það ekki duga til. Losunin gæti því átt eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ykkur. Loftslagsbreytingar eru eitt af stærstu málum samtímans og Íslendingar og Svíar eru í hópi þjóða sem tekist hafa á hendur skuldbindingar samkvæmt Parísarsáttmálanum og ætla sér að draga úr losun.“

Margar leiðir eru færar í þeim efnum en í ljósi þess að hér um bil 90% allra okkar bílferða eru um skamman veg segir Hedberg tilvalið að byrja þar og nota reiðhjólið í auknum mæli. Margt smátt geri eitt stórt. „Og þar sem ég hjóla sjálfur á hverjum einasta degi, árið um kring, rennur mér blóðið til skyldunnar. Þess vegna segi ég: Íslendingar, hjólið meira!“

Nánar er rætt við Bosse Hedberg í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert