Stórfelld fíkniefnamál fyrir norðan

Meðfylgjandi mynd er tekin í kannabisræktuninni í iðnaðarhúsinu á Akureyri.
Meðfylgjandi mynd er tekin í kannabisræktuninni í iðnaðarhúsinu á Akureyri. Facebook-síða lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Lögreglan á Akureyri gerði húsleit í einbýlishúsi á Grenivík um miðjan dag í gær og stöðvaði þar kannabisræktun. Einn var handtekinn í húsinu og játaði hann við skýrslutökur að hafa staðið að ræktuninni og að hafa ætlað að selja afraksturinn.

Þar voru í ræktun um 50 plöntur auk þrjátíu græðlinga. Þá var lagt hald á rúmlega tvö kíló af marijúna. Þar var um að ræða efni sem búið var að uppskera og þurrka af plöntum sem höfðu verið í ræktun á sama stað og tilbúið til dreifingar.

Fyrir mánuði síðan stöðvaði lögreglan á Akureyri aðra kannabisræktun en sú var í iðnaðarhúsnæði á Akureyri. Þar voru í ræktun 40 kannabisplöntur og svipað magn græðlinga. Þær plöntur sem voru lengst komnar í ræktun voru mjög stórar, enda umbúnaðurinn í kringum ræktunina mikill. Einn maður var handtekinn innandyra en lögreglan hefur síðan tekið skýrslur af tveimur í viðbót.

20 fíkniefnamál í apríl og 22 ökumenn undir áhrifum fíkniefna

Auk þessara mála komu 20 fíkniefnamál upp hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í apríl þar sem lagt var hald á töluvert af marijúana, en einnig amfetamín, kókaín og e-töflur. Í apríl voru 22 ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímsvarann 800-5005 þar sem hægt er að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnabrot og einnig netfangið info@rls.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert