Ekkert ofboðslega spennandi mál

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég heyrði fyrst um þetta á RÚV í morgun,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG og nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, þegar hann er spurður að því hvenær hann hafi heyrt um fyrirhugaða sameiningu Tækniskólans og FÁ.

Ekkert var fjallað um málið á Alþingi og ekki heldur í allsherjar- og menntamálanefnd. „Við vorum með ráðherrann og ráðuneytið á nefndarfundi fyrir rúmri viku til að tala um ríkisfjármálaáætlun. Þar var ekkert minnst á neitt svona í tengslum við þróun mála til næstu fimm ára. Það hefði verið fínt tækifæri að nefna áform eins og þessi,“ segir Andrés.

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra er ekki á landinu en þingmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu fyrirhuguðum áformum harðlega á þingi í morgun. Ráðherrann sagði í samtali við RÚV í morgun að verið væri að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi.

„Það litla sem maður getur séð af þessu máli er ekkert ofboðslega spennandi,“ segir Andrés og bætir við að það þurfi að fá skýr svör um hvort það sé hægt að fara framhjá þinginu þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar.

FÁ er enginn smáskóli, um þúsund nemenda skóli, og þar með einn af þeim stærstu. Tækniskólinn er sá stærsti þannig að maður hefði talið eðlilegt að nefna þetta við þingið áður en farið er að vinna í sameiningu milli skólanna.“

Kristján hefur verið boðaður á fund allsherjar- og menntamálanefndar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka