Þær Magnea og Marta eru heillaðar af samfélagi Íslendinga á Kanarí, þangað sem margir þeirra fara til að dvelja yfir vetrartímann. Þær vinna nú að heimildarkvikmynd um þetta samfélag þar sem sungið er og spilað á harmonikku, tekið í nefið og skálað. Þær segja mikla og fallega nánd í þessum félagsskap eldra fólks.
„Þetta er mjög fallegt samfélag og þarna hittast þeir árlega íslensku farfuglarnir, fólkið sem hefur vetursetu í sólinni í suðri. Þarna er eilíft vor og ljúft loftslag og fólk talar um að það upplifi sig síður einangrað og innilokað á Kanarí heldur en heima í frosti, kulda og hálku. Fólk getur auðveldlega sótt sér félagsskap í söngstundir, mínígolf og aðra fasta liði. Myndin okkar er líka stúdía um lífið eftir að fólk hættir að vinna, hvað tekur þá við.“
Magnea segir að útgangspunkturinn í myndinni sé Klara, íslensk kona sem búsett er á Kanarí og rak þar Klörubar í 28 ár.
„Hún er einstök manneskja, elskuð og dáð, enda fer hún á fætur um nætur ef þarf til að hjálpa íslenskum ferðamönnum, hún reddar öllu mögulegu.“
En Klara er ekki eini Íslendingurinn sem er búsettur á Kanarí, þar býr líka Ella hárgreiðslukona, Andrea fótaaðgerðafræðingur og hennar maður, Jón Ottó, sem sér um að geyma töskur fyrir fastagesti meðan þeir eru heima á Íslandi.
Svo eru það Vestmannaeyingarnir Marý á Kirkjubæ og Runólfur maðurinn hennar, sem dvelja á Kanarí yfir veturinn og eru þá aðalsprauturnar í því að halda uppi söngskemmtunum á Roque Nublo, vinsælasta Íslendingahótelinu. „Við fórum á slíka söngskemmtun, það var sungið og spilað á harmonikku, tekið í nefið og skálað. Þetta var hálfgerð útilegustemning, rosalega gaman. Á Kanarí er stemningin ekki ósvipuð því sem fólk þekkir í íslenskum sveitaþorpum. Þetta er kynslóðin sem upplifði þegar hún var upp á sitt besta lög eins og „Á Spáni er gott að djamma og djúsa“, segja þær Magnea og Marta en taka fram að á Kanarí séu ekki fullir Íslendingar, eins og margir halda.
„Þvert á móti er þetta afslappað og notalegt, heilbrigður félagsskapur. Þetta er fólkið sem tók með sér Orabaunir og hangikjöt til Kanarí í fyrstu ferðunum þangað. Það er mikil og falleg nánd í þessum félagsskap eldra fólks og fólk er stundum að draga sig saman, enda þó nokkuð um ekkla og ekkjur, fólk sem vill eignast félaga.“
Magneu og Mörtu finnst gaman að stúdera verslunarkjarnana, eða „mínímollin“, á Ensku ströndinni.
„Klörubar er í Yumbo Center, en þar er fjölbreytt og litríkt mannlíf. Þar er rótgróið samfélag samkynhneigðra, hommar hafa átt þar griðastað allt frá því á sjöunda áratugnum. Klara sagði að í upphafi reksturs hennar hefði verið gert samkomulag um að í Yumbo Center fengju allir að vera eins og þeir eru. Kanarí er því paradís homma og ellilífeyrisþega, á mjög jákvæðan og umburðarlyndan hátt. Margir klæðskiptingabarir eru í Yumbo Center og gaman að detta inn á sýningar þar sem kaldhæðnar draggdrottningar fara mikinn og rammfalskur Elvis syngur. Við erum ekki að gera grín að neinum í þessari heimildarmynd, við berum mikla virðingu fyrir viðmælendum og viðfangsefninu. Fjölbreytileikinn og húmorinn í lífsgleði þessa fólks er það sem okkur finnst spennandi að fanga í myndinni okkar.“
Þær segja tómarúm hafa myndast þegar Klara hætti að reka Klörubar árið 2010. „Þá tóku aðrir við rekstrinum en maðurinn hennar Klöru, hinn katalónski Cisco, eldar enn íslenskan mat vikulega á Klörubar. En Íslendingarnir hafa fært sig þó nokkuð yfir á Mannabar, sem er lítill spænskur sveitabar rekinn af hjónum frá Galisíu, Manuel og Dinu. Þau tala hvorki ensku eða íslensku en uppi um alla veggi á veitingastaðnum þeirra eru úrklippur úr íslenskum dagblöðum, m.a. um gosið í Vestmannaeyjum. Þessi hjón eru miklir vinir allra Íslendinga og Mannabar er aðalmálið hjá Íslendingum á Kanarí núna. Það er fallegt að sjá samskipti hjónanna við Íslendingana, af því þau fara fram á einhverju sem er handan tungumálsins. Þarna ríkir mikil gleði og þar er líka sungið. Á Mannabar býður Manuel upp á Mannakjöt, sem er þurrkað spænskt kjöt.“
Magnea segir að þeim vinkonunum finnist áhugavert að skoða hvernig Íslendingar sem ferðamenn hegði sér erlendis, þar sem þeir eru gestir. „Með auknum ferðamannastraumi til Íslands er áhugavert að skoða hvernig við erum sem útlendingar í öðrum löndum. Við lifum á varhugaverðum tímum þar sem þjóðernishyggja fer vaxandi sem og kynþáttafordómar. En fólk er í grunninn eins, hvaðan sem það kemur.“ Þær Magnea og Marta eru að safna fyrir heimildarmyndinni á Karolina fund. „Við erum að vinna í handritinu, höfum filmað heilmikið af skemmtilegu efni og erum búnar að mynda tengsl við fólkið. Við ætlum aftur út til Kanarí til að bæta við efni, en við stefnum að því að klára myndina á einu ári.“