Hlýindi helgarinnar fara hverfandi með vikunni að sögn Haralds Eiríkssonar veðurfræðings hjá Veðurstofunni.
Búast má við rólegri vestanátt í dag og skýjuðu veðri en líklegast mun haldast þurrt út daginn. Hlýindin halda áfram í dag og á morgun og er spáð sól á Suðaustur- og Austurlandi en eftir það lækkar hitinn smám saman og er rigningarspá fyrir þriðjudagskvöldið.
„Það er hret í kortunum á miðvikudaginn á norðanverðu landinu. Slydda og snjókoma á heiðum,“ segir Haraldur í Morgunblaðinu í dag.