Líkur benda til þess að um og eftir kl. 11 á morgun, miðvikudaginn 10. maí, verði þjóðvegi 1 milli Hellu og Hafnar í Hornafirði lokað vegna óveðurs og sandstorms, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Næsta sólarhringinn verða mikil umskipti í veðri og útlit er fyrir talsvert hret sem verður hvað verst á Vestfjörðum. Hríðarveður þar á fjallvegum frá því í nótt og snemma í fyrramálið með NA 20-25 m/s, segir í veðurspá.
Slysavarnafélagið Landsbjörg vekur athygli á slæmri veðurspá næstu daga sem líklegt er að muni hafa áhrif á ferðafólk víða um land. Í fyrramálið fer að hvessa og snjóa á Vestfjörðum og má reikna með að færð spillist á heiðar- og fjallvegum og reikna má með að áhrifa veðursins gæti á Ströndum og jafnvel suður að Bröttubrekku. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Landsbjörg bendir jafnframt á að fyrir þá sem hyggja á fjallaferðir næstu dagana er rétt að benda á að mikil úrkoma verður á fjöllum sem verður að mestu leyti í formi snjókomu. Snjóalög gætu því gert göngumönnum erfitt fyrir. Samhliða þessu gæti snjóflóðahætta aukist á ákveðnum svæðum.