Dómur staðfestur vegna þyrlukaupa

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest níu mánaða skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni fyrir umboðssvik í máli sem tengist þyrlukaupum. Honum hefur einnig verið gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eða 918.052 krónur.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn upphaflega í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi í maí á síðasta ári. Hann áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar.

Manninum, sem var eigandi tveggja einkahlutafélaga, voru gefin að sök umboðssvik með því að hafa árið 2009 undirritað skjal sem fól í sér afsal á þyrlu til annars félagsins frá hinu. Sama dag undirritaði hann fyrir hönd annars félagsins lánssamning þar sem lánað var fyrir kaupverðinu og hins vegar leigusamning þar sem félagið sem keypti þyrluna leigði hana aftur til hins. Þannig hefði skuld fyrirtækisins sem keypti þyrluna verið skuldajöfnuð við umsamdar leigugreiðslur og fyrirtækið því orðið eigandi þyrlunnar án þess að nokkurt endurgjald hefði komið fyrir.

Fyrir lá að þyrlan hefði ekki haft heimild til loftferða þann tíma sem hún var leigð.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarmaður í öðru fyrirtækinu var einnig dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi.

„Með því að engir peningar skiptu um hendur við sölu þyrlunnar tók A hf. sem seljandi á sig alla áhættuna af viðskiptunum með því að leigja þyrluna þótt engin verkefni væru fyrir hana í starfsemi félagsins. Þannig varð félagið fyrir fjártjóni í bráð og til lengdar var fjártjónshættan veruleg þar sem alls óvíst var hvort þyrlan gat nýst í rekstri þess,“ segir í dómi Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert