Hælisumsókn Ezes hafnað

Eze Okafor er frá Nígeríu.
Eze Okafor er frá Nígeríu. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég hyggst bera þessa ákvörðun Útlendingastofnunar undir kærunefnd útlendingamála,“ segir Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Nígeríumannsins Ezes Okafor sem óskaði eftir hæli hér á landi en um ár er liðið síðan honum var vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem hann hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð. Útlendingastofnun hafnaði í gær umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

„Það er í raun alveg óskiljanleg þessi tregða hjá íslenskum yfirvöldum og hvernig farið hefur verið með hann þegar allt ferlið er skoðað,“ segir Katrín en Eze hefur frá því honum var vísað úr landi verið í Svíþjóð þar sem hann hefur fengið inni hjá vinafólki.

Hælisumsókn hans þar hafði áður verið hafnað þar í landi en það gerði Íslandi kleift að beita ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og senda hann þangað aftur. Fimm ár eru síðan Eze kom til Íslands en hann flúði heimaland sitt Nígeríu að eigin sögn eftir að hafa orðið fyrir árásum og ofsóknum vígamanna hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Sænsk stjórnvöld hafa þegar sagt að þau ætli ekki að taka mál Ezes fyrir aftur.

„Málið tók fjögur ár í dómskerfinu og það var ekki honum að kenna að það tók svona langan tíma heldur þótti ástæðan til þess að láta reyna á það hvort fresturinn til að endursenda hann á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar væri ekki útrunninn. Það voru nokkur mál sem höfðu gengið í dómskerfinu á þessum tíma og dómarnir voru einfaldlega svo misvísandi. Þess vegna þótti ástæða til þess að láta reyna á þetta hjá Hæstarétti.“

Þetta hafi orðið til þess að málið hafi tekið meira en fjögur ár í íslenska kerfinu, bæði í stjórnsýslunni og hjá dómstólum. „Ég taldi rétt af þessari ástæðu að láta reyna á það hvort hann ætti ekki rétt á dvalarleyfi af mannúðarástæðum því samkvæmt útlendingalögunum mega stjórnvöld veita dvalarleyfi ef mál þeirra hefur tekið tvö ár í kerfinu. Ég byggði umsókn hans aðallega á þessu og síðan einfaldlega á mannúðarástæðum.“

Útlendingastofnun hafi núna hafnað þessum málatilbúnaði. Aðspurð segir hún að það sé misjafnt hversu langur tími líður þar til úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir. „Það má alla vega búast við nokkrum mánuðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert