Réðst á fjögurra ára son sinn

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi, til að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur og rúmlega eina milljón króna í sakarkostnað fyrir að hafa ráðist á fjögurra ára son sinn.

Í dóminum kemur fram að málið hafi verið höfðað með ákæru fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og brot á barnaverndarlögum með því að hafa laugardaginn 4. júní 2016 á heimili sínu í Reykjavík veist með ofbeldi að syni sínum. Honum var gefið að sök að hafa tekið drenginn kverkataki með annarri hendi og ýtt aftan á háls hans með hinni hendinni til að fá hann til að taka inn vítamíntöflu.

Drengurinn hlaut marbletti framan á hálsi, punktblæðingar í andliti og grunn rifsár framan á brjóstkassa.

Bréf frá Barnavernd Kópavogsbæjar

Barnavernd Kópavogsbæjar fór þess á leit með bréfi sem hún sendi til lögreglu 9. júní 2016 að fram færi rannsókn vegna gruns um að maðurinn hefði beitt son sinn ofbeldi. Í bréfinu var vísað til þess að tilkynningar hafi borist frá leikskóla barnsins og heimilislækni þess efnis að drengurinn væri með mikla áverka á hálsi og í andliti eftir ákærða.

„Ákærði hafi komið með brotaþola í leikskólann, mánudagsmorguninn 6. júní 2016, og hitt deildarstjóra á leikskólanum í fataherbergi skólans og borið sig illa. Hann hafi greint frá því að brotaþoli hefði verið erfiður alla helgina. Ákærði hefði misst stjórn á sér og lagt hendur á brotaþola þegar hann hefði ætlað að gefa brotaþola inn vítamín. Ákærði hafi greint frá því að hann hefði verið harðhentur og væri miður sín,“ segir í dóminum þar sem vísað er í innihald bréfsins.

Maðurinn viðurkenndi að hafa veist að brotaþola og að hafa valdið honum áverkunum. Hann kannaðist samt ekki við að rifsár á brjóstkassa hafi hlotist af hans völdum.

Skorti fínhreyfingar

Fram kom í dóminum að maðurinn hafi verið miður sín og því lýst að hann hefði misst sig gagnvart syni sínum. „Heimilislæknir mannsins lýsti heilsufarssögu hans frá því er hann á árinu 2006 veiktist í tvígang með heilablæðingu. Fram kom m.a. að ákærða skorti fínhreyfingar eftir veikindin. Þá var hjartaáfalli, er ákærði hafi fengið á árinu 2016, lýst og áhrifum þess á hann,“ segir í dóminum.

Mildi að ekki hlaust alvarlegur skaði af

Að mati dómsins var sú háttsemi mannsins að taka drenginn kverkataki sérstaklega hættuleg líkamsárás. „Er þá einkum horft til þess að sú háttsemi að stöðva bakflæði blóðs frá höfði skapar hættu á blæðingu í höfði, sem er einstaklingsbundin og getur verið lífshættuleg í því tilliti. Ákærða mátti vera hættan ljós, auk þess sem hann var meðvitaður um skertar fínhreyfingar sínar. Var aðferð hans því stórhættuleg og mikil mildi að ekki hlaust alvarlegur skaði af,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Fram kemur að maðurinn eigi að baki talsverðan sakaferil og hafi margsinnis hlotið fangelsisdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert