Vegalokanir líklegar á morgun

Hvasst verður í Öræfum á morgun.
Hvasst verður í Öræfum á morgun. mbl.is/Rax

Í nótt hvessir á ný í Öræfum og verður hvöss norðaustanátt og geta vindhviður farið í 35-45 m/s til hádegis og jafnvel lengur á morgun, föstudag. Áfram verður hvasst og byljótt í Mýrdal og austan til undir Eyjafjöllum fram eftir föstudagsmorgni. 

„Gangi veðurspá eftir er líklegt að loka þurfi þjóðvegi 1 á Suðausturlandi snemma morguns föstudaginn 12. maí. Reiknað er með að sú lokun geti staðið þar til eftir hádegi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. 

Enn er sums staðar hvasst og hviðótt á Suður- og Suðausturlandi, s.s. á Reynisfjalli og við Sandfell í Öræfum. Þar ættu t.d. húsbílar alls ekki að vera á ferð.

Úrkoma og staðbundin flóð

Veðurstofan varar við mikilli úrkomu á Austurlandi á morgun, föstudag, einkum á Austfjörðum og á Suðausturlandi austan Öræfa. Úrkoman fellur að öllum líkindum sem rigning eða slydda á láglendi, en snjókoma til fjalla. „Því er útlit fyrir versnandi ferðaveður á þessum slóðum og er fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Þrátt fyrir að það hlýni á laugardag og dragi úr úrkomunni má búast við talsverðri rigningu á Austurlandi. „Samfara þessari úrkomu má búast við auknu rennsli í ám og lækjum á svæðinu og eru staðbundin flóð líkleg,“ segir jafnframt í tilkynningu Veðurstofunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert