„Við munum halda hátíðina“

Skógafoss.
Skógafoss. Ljósmynd/TommyBee

„Við munum halda hátíðina og erum með leyfi landeigandans. Við munu sjá til þess að hátíðin uppfylli öll skilyrði sem sett eru af eftirlitsaðilum og áfram verður lögð áhersla á að vinna í góðri sátt við alla aðila á svæðinu,“ segir Friðrik Ólafsson, einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Nig­ht + Day sem verður haldin á jörðinni Drangshlíðardal við Skógafoss 14. til 16. júlí næstkomandi.

Friðrik áréttar að skipuleggjendur séu með leyfi landeigenda ólíkt því sem hefði mátt lesa úr ummælum oddvita héraðsnefndar Rangárvallarsýslu á mbl.is fyrr í dag.  

Landeigandi lánar land undir hátíðarsvæðið, þar með talið tónleikasvæði og tjaldstæði fyrir hátíðargesti, segir Friðrik. Leitað var eftir því við héraðsnefndina að tónleikagestir fengju afnot af tjaldsvæðinu við Skógafoss en því var hafnað á fundi á mánudaginn síðastliðinn.  

Alls verða 6.000 miðar seldir á tónlistarhátíðina og hefst sala á morgun. 2.500 miðar fara í sölu erlendis, 2.500 hér á landi á Tix.is og aðdáendaklúbbi hljómsveitarinnar The xx gefst kostur á að kaupa 1.000 miða. „Þeir eru allir uppseldir,“ segir Friðrik. 

Rútuferðir frá Reykjavík

„Tónlistarhátíðin mun ekki hafa nein áhrif á aðgengi ferðamanna að Skógafossi á meðan hátíðin er,“ segir Friðrik. Rútur munu ferja tónleikagesti til og frá hátíðarsvæðinu. Boðið verður upp á rútuferðir á hverjum degi frá Reykjavík ef fólk kýs að gista ekki á tjaldsvæðinu. Þá munu tónleikagestir sem koma á einkabílum þurfa að leggja þeim á bílastæði sem er í um 10 til 15 mínútur frá hátíðarsvæðinu og verða keyrðir með rútu inn á svæðið. 

Friðrik tekur fram að leyfi fyrir tónlistarhátíð sem þessari liggi sjaldnast fyrir fyrr en nokkrum dögum fyrir hátíðina þegar eftirlitsaðilar eru búnir að taka út svæðið. 

Hluti af aðgangseyri hátíðarinnar verður settur í sjóð sem nýttur verður til að bæta aðstöðu í kringum Skógafoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert