Mistök við viðgerð á farþegaferjunni Baldri í morgun ollu því að ferjan varð vélarvana á milli lands og Vestmannaeyja á öðrum tímanum í dag. Þetta segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs. Skipið er nú komið aftur í gang og er á leið til Eyja.
„Hitun í vél kom upp í skipinu á leið til Landeyjarhafnar fyrir hádegi í dag vegna óhreininda í kælikerfi en þegar gert var við það voru gerð smá mistök sem ollu þessu. En skipið er komið í gang núna og mun að mér skilst ná fullu afli,“ segir Gunnlaugur í samtali við mbl.is, en hann var sjálfur í ferjunni á leið til Landeyjahafnar.
Ferjan varð vélarvana norðan við Elliðaey, á milli lands og Vestmannaeyja, en greint var fyrst frá því á Eyjar.net. Baldur fór af leið klukkan 13:18 en Lóðsinn, dráttarbátur frá Vestmannaeyjum, var kallaður til til aðstoðar. Kom þó ekki til þess að það þyrfti að draga ferjuna, þar sem hægt var að laga bilunina og koma skipinu aftur í gang. „En það er auðvitað aldrei gott þegar ferja er ekki með afl á siglingu,“ segir Gunnlaugur.
Ferjan átti að fara frá Vestmannaeyjum klukkan 13:45 og frá Landeyjahöfn klukkan 14:45, en ljóst er að seinkun verður á þeim ferðum. „Það er smá seinkun en við náum líklega að vinna hana upp á tveimur leggjum,“ segir Gunnlaugur að lokum.