Verð undir væntingum hjá Gallerí Fold

Verk Jónsa „The riceboy sleeps,The trees turn red,“ var til …
Verk Jónsa „The riceboy sleeps,The trees turn red,“ var til sölu í kvöld. Mynd/ Jóhann Ágúst Hansen

Ríflega eitt hundrað myndir eftir fremstu listamenn þjóðarinnar voru boðnar upp fyrir samtals 18,5 milljónir á listmunauppboði Gallerí Foldar í kvöld. Uppboðshaldari segir það hafa komið á óvart hvað verðið hafi farið lágt. Dýrari verkin hafi farið undir matsverði að þessu sinni. Veðurfar kunni að spila hér inn í.

Hæsta verðið fékkst fyrir olíumálverkið Frá Hreðavatni eftir Ásgrím Jónsson en það fór á 1,2 milljónir sem er töluvert undir verðmati. Hann málaði verkið árið 1935 og er það með stærri verkum Ásgríms. Nafn kaupandans fékkst ekki gefið upp en það mun þó hafa verið einstaklingur en ekki fyrirtæki. Boðið var í verkið bæði í síma og í sal en kaupandi Ásgrímsmyndarinnar var viðstaddur uppboðið. 

Einfarar í íslenskri myndlist áttu sinn sess á uppboðinu. Boðin voru upp verk eftir Stórval, Eggert Magnússon, Elísabetu Geirmundsdóttur og Samúel Jónsson en verk eftir þau tvö síðastnefndu koma sjaldan í sölu. Af verkum eftir gömlu meistarana má nefna tvö málverk eftir Þorvald Skúlason, nokkur verk eftir Ásgrím Jónsson, auk verka eftir Alfreð Flóka, Kristínu Jónsdóttur og Nínu Tryggvadóttur. Sex verk voru til sölu eftir Kjarval. Verk eftir starfandi listamenn voru einnig til sölu en þar mátti meðal annars finna verk eftir Línu Rut, Hauk Dór og Tolla.

Verk Jónsa innkallað

Með athyglisverðari verkum kvöldsins var „The riceboy sleeps,The trees turn red“ eftir Jónsa eða Jón Þór Birgisson sem betur er þekktur sem gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni Sigur Rós. Heiti verksins svipar til nafns fyrstu plötu Jónsa utan Sigur Rósar, „Riceboy sleeps“ frá árinu 2009. Verkið hafði verið metið á 700-900 þúsund krónur á vefsíðu gallerísins, en eftir 350 þúsund króna boð var það innkallað og ekki selt. 

Jóhann Ágúst Hansen, uppboðshaldari Gallerís Foldar, segir að ekki séu mörg verk Jónsa í umferð og því hafi þau ekki haft reynslu af því hvernig verk eftir hann hafi selst. „Verðmatið var því ákveðið út frá upphæðinni sem eigandinn keypti verkið á og grundvallaðist það einnig á stöðu Jónsa sem þekkts tónlistarmanns.“ Jóhann segir það hafa komið sér á óvart að myndin hafi ekki selst. Einhverjir uppboðsgesta höfðu á orði að væntanlega væri kynslóð Jónsa enn ekki mætt í uppboðssali íslenskrar myndlistar.

Dýru verkin fóru undir matsverði

Jóhann segir að dýrustu verk uppboðsins hafi farið undir matsverði. Það hafi til dæmis verið mjög einkennilegt að síðasta mynd uppboðsins, Börn að leik eftir Þorvald Skúlason, hafi ekki selst. „Síðast þegar við fengum mynd af þessu tagi eftir Þorvald þá var hún seld á sex milljónir,“ sagði Jóhann. „Þetta snýst allt um að hitta á rétta manninn og það vildi þannig til núna að við hittum ekki á hann.“

Hann segir ástæðuna fyrir lágum boðum líklega vera gott veðurfar. „Það er ótrúlegt hvað utanaðkomandi þættir geta haft mikil áhrif á uppboðin. Hér var það einfaldlega fyrsta sólarhelgi sumarsins. Fólk eyðir helginni uppi í bústað og hefur því ekki tíma til að skoða verkin fyrir fram og þá er það ekki tilbúið að bjóða í svona dýr verk óséð,“ sagði Jóhann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert