26 flugfélög fljúga til Íslands í sumar

Búast má við að minnsta kosti 12 heilsársflugfélögum hingað til …
Búast má við að minnsta kosti 12 heilsársflugfélögum hingað til lands á þessu ári. mbl.is/Hanna

26 flugfélög munu fljúga hingað til Íslands í sumar, en þrjú ný flugfélög munu fljúga hingað til lands yfir sumarmánuðina. Þá hefur þeim flugfélögum sem fljúga hingað allt árið fjölgað jafnt og þétt, en búist er við að 12 heilsársflugfélög fljúgi hingað til lands árið 2017. Þeim getur þó fjölgað enn frekar. Árið 2015 voru heilsárflugfélögin 8 talsins, en 2010 aðeins 3. Þetta kom fram á máli Grétars Más Garðarssonar, verkefnastjóra á viðskiptasviði Keflavíkurflugvallar á morgunfundi Isavia í morgun.

Árið 2016 fjölgaði bæði komu- og brottfararfarþegum um 36 prósent, en hlutdeild þeirra flugfélaga sem fljúga hingað allt árið er um 95 prósent. Það er um 39 prósent aukning á milli ára. Samkvæmt farþegaþróunarspá Isavia er búist við að farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll muni fjölga um 28 prósent á þessu ári.

Verið er að stækka suðurbyggingu flugstöðvarinnar um 7000 fermetra.
Verið er að stækka suðurbyggingu flugstöðvarinnar um 7000 fermetra. Mynd/Isavia

Þessi fjölgun farþega kallar á breytingar á flugstöðinni, bætta aðstöðu og meiri þjónustu. Verið er að stækka suðurbygginguna um 7000 fermetra og verður fyrsti hlutinn tekinn í notkun núna í maí, en þar er um að ræða hluta landgangs og nýja biðstofu. Í júní verður svo tekinn í notkun nýr landamærasalur og verslunum fjölgað, en í nýjum sal verður hægt að afgreiða um 4000 manns á klukkutíma. Að lokum verður setusvæði farþega við hlið bætt og stefnt er á að betri aðstaða verði tekin í notkun í síðasta lagi í nóvember.

Í haust stendur einnig til að fjölga um eina landgöngubrú og verða þær þá 12 talsins, en einnig hefur verið farið í yfirhalningu á eldri landgöngubrúm sem mun lengja líftíma þeirra til muna. Með því hefur dregið úr bilunum brúa og lítið er um að þær valdi töfum á flugum. Þá verða tvö ný flugvélastæði tekin í notkun í júní og verða þau þá 22 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert