Ástand hjólreiðamannsins alvarlegt

Maðurinn fannst við síðustu brekkuna niður úr Dyrfjöllum á Nesjavallaleið.
Maðurinn fannst við síðustu brekkuna niður úr Dyrfjöllum á Nesjavallaleið. Kort/map.is

Hjólreiðamaðurinn sem fannst meðvitundarlaus á Nesjavallaleið um klukkan 14 í gær og var fluttur með neyðarflutningi á Landspítalann í Fossvogi er alvarlega slasaður og haldið á gjörgæslu. Þetta staðfestir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sem fer með rannsókn málsins.

Engin vitni voru að slysinu, en vegfarandi kom að manninum þar sem hann lá meðvitundarlaus á jörðinni við hjólið. Þorgrímur segir að maðurinn sé erlendur ferðamaður sem hafi verið einn á ferð. Hefur fjölskyldu mannsins verið gert viðvart.

Þorgrímur segir að aðstæður virðist hafa verið ágætar, þurrt á veginum, en að brekkan sem hann hafi komið niður sé nokkuð brött. Samkvæmt umferðarskiltum er halli í brekkunum við Dyrfjöll á bilinu 15-16% þar sem hann er mestur.

Maðurinn var að hjóla í vesturátt og að sögn Þorgríms var hann að koma niður síðustu brekkuna á leiðinni niður úr Dyrfjöllum. Þorgrímur segir að ekki sé vitað um aðdraganda slyssins, en svo virðist vera sem hann hafi dottið í brattri brekkunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert