Sat í ísbaði í 20 mínútur

Vilhjálmur Andri Einarsson sat í ísbaðinu í rúmar 20 mínútur.
Vilhjálmur Andri Einarsson sat í ísbaðinu í rúmar 20 mínútur. ljósmynd/Róbert Daníel Jónsson

Vilhjálmur Andri Einarsson bar sigur úr býtum á Íslandsmeistaramótinu í ísbaði, sem haldið var í sundlaug Blönduóss í dag. Sat hann í ísköldu vatninu í 20 mínútur og 18 sekúndur og sló þar með Íslandsmet.

Benedikt Lafleur hafnaði í öðru sæti með tímann 17:21 mínúta og í þriðja sæti lenti Vestur-Íslendingur sem aldrei fyrr hafði farið í ísbað. Sá heitir Helgi Gunnar Thorvaldson og sat í vatninu í 15:04 mínútur.

Sjúkraflutningamenn frá Blönduósi voru á svæðinu.
Sjúkraflutningamenn frá Blönduósi voru á svæðinu. ljósmynd/Róbert Daníel Jónsson

„Þetta gekk rosalega vel,“ segir Benedikt Lafleur, skipuleggjandi mótsins, í samtali við mbl.is. „Ég er mjög ánægður með umgjörðina, fyrirkomulagið og aðstoðarmenn en það voru sjúkraflutningamenn frá Blönduósi sem voru með sjúkrabíl reiðubúinn við sundlaugina. Öll öryggisatriði voru eins og best var á kosið.“

„Ég var steinhissa“

Þá segir hann frammistöðu keppenda hafa gengið vonum framar og komið mikið á óvart. „Ég var steinhissa,“ segir Benedikt, en sjálfur sló hann sitt eigið met frá því í fyrra, þegar hann sat í vatninu í 13 mínútur og 10 sekúndur.

Benedikt segir helsta markmið keppninnar að sýna fram á heilsugildi kaldra baða. Því sé ekki aðalatriði að setja met, „þó að maður vilji alltaf gera betur en maður hefur áður gert.“

Alls tóku 6 keppendur þátt og setið var í tveimur körum á sama tíma. Eftir keppnina fengu krakkar á svæðinu að prófa að sitja í vatninu.

Kuldinn í vatninu var við frostmark.
Kuldinn í vatninu var við frostmark. ljósmynd/Róbert Daníel Jónsson
Setið var í tveimur körum.
Setið var í tveimur körum. ljósmynd/Róbert Daníel Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert