Brot forsætisráðherra var skýrt

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var jafnréttisráðherra ánægður með viðbrögð forsætisráðherrans við úrskurði kærunefndarinnar?“ spurði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, á Alþingi í dag. Vitnaði hún þar í að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra braut jafn­rétt­is­lög í starfi sínu sem fjár­málaráðherra þegar hann skipaði karl­mann en ekki konu í embætti skrif­stofu­stjóra skrif­stofu op­in­berra fjár­mála 31. ág­úst í fyrra.

Í úr­sk­urðinum kem­ur fram að kær­andi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafn­rétt­is­lög­um með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæf­ari en karl­inn sem var skipaður.

Gerir ekki sömu kröfur til sjálfs sín

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði áður lýst þeirri eindregnu skoðun sinni að sá ráðherra sem bryti jafnréttislög ætti umsvifalaust að segja af sér, en hann gerir ekki þá sömu kröfu til sjálfs sín og situr sem fastast,“ sagði Oddný og bætti við að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefði farið mikinn í umræðum á sínum tíma.

„Hún staðhæfði að ráðherra sem fengi slíkan úrskurð væri í djúpum skít, eins og hún orðaði það þá. Nú heyrist hins vegar ekkert í hæstv. sjávarútvegsráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þótt slíkt brot hafi framið fyrrverandi samflokksmaður hennar og náinn samstarfsmaður. Og nú situr Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í ríkisstjórn sem kveðst leggja sérstaka áherslu á jafnréttismálin.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert

Mikill pólitískur leikur

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagðist ekki ætla að leggja dóm á hverjir skuli segja af sér við slík tilfelli. „Mér fannst þetta vera mikill pólitískur leikur á sínum tíma þegar þessi umræða fór af stað. Tilgangur jafnréttislaganna í þessu samhengi er ekki að hengja einhverja poka á hið pólitíska vald hverju sinni heldur að tryggja framgang jafnréttislaganna, tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og sérstaklega hjá hinu opinbera.

Oddný spurði hvernig ráðherra ætlaði að tryggja það sem hann boðaði. „Brot forsætisráðherra var skýrt. Um var að ræða jafnhæfa einstaklinga og hann braut lögin. Ég vil spyrja jafnréttisráðherra: Hvernig mun hann bregðast við ef þetta gerist aftur í ríkisstjórninni?“

Þorsteinn sagði þetta pólitískan leik sem hann nennti ekki að taka þátt í. „Jafnréttið er lykilatriðið. Það þarf að tryggja jafnrétti og framkvæmd laganna. Það er það sem skiptir öllu máli. Ef svo reynist vera að virkni þessa ákvæðis jafnréttislaga verður ekki sem skyldi þurfum við auðvitað að horfa til þess að breyta þeim,“ sagði hann og bætti við að honum sýndist af úrskurði kærunefndar að ákvæðið virki ágætlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert