Ísland mælir ekki fjármálalæsi með PISA

Ísland tók hvorki þátt í fjármálalæsisþætti PISA árið 2012 né …
Ísland tók hvorki þátt í fjármálalæsisþætti PISA árið 2012 né 2015. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Ísland tók hvorki þátt í fjármálalæsisþætti PISA árið 2012 né 2015 og því er hvorki hægt að fjölyrða um þekkingu íslenskra ungmenna, né bera hana saman við aðrar þjóðir. Rannsóknin verður endurtekin á næsta ári og mun 21 land taka þátt. Ísland er ekki eitt þeirra. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá stofnun um fjármálalæsi, en niðurstöður PISA-rannsóknarinnar í fjármálalæsi voru kynntar í höfuðstöðvum OECD í París í dag. Þar kom fram að kínverskir nemendur stæðu sig best, en á hæla þeirra komu flæmskir Belgar. 

Fjármálalæsi Íslendinga enn ábótavant

Rannsóknir á fjármálalæsi Íslendinga hafa þó verið gerðar hér á landi frá árinu 2008 af stofnun um fjármálalæsi og hefur þar komið fram að þótt fjármálalæsi fari batnandi sé því enn ábótavant. Meðal helstu niðurstaðna síðustu rannsóknar á fjármálalæsi Íslendinga frá árinu 2014 má nefna að Íslendingar skoruðu hærra en áður í öllum þremur þáttum fjármálalæsis; þekkingu, viðhorfum og hegðun.

Meðaltal réttra svara í þekkingarhlutanum var 67% 2014, en 47% árið 2011 og 53% árið 2008. Nærri tvöfalt fleiri héldu heimilisbókhald 2014 en 2011 (30% en var 16%), en að því er fram kemur í tilkynningunni er heimilisbókhald einmitt vísbending um góða stjórnun á eigin fjármálum. „Nokkuð jákvætt samband er milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum. Því jákvæðari viðhorf þátttakenda, þeim mun jákvæðari hegðun sýndu þeir.“

Ekki mikill munur á árangri kynjanna

PISA (The Programme for International Student Assessment) er rannsókn sem gerð er á þriggja ára fresti og er ætlað að meta menntakerfi víða um heim með því að kanna þekkingu 15 ára nemenda í náttúrufræði, lestri og stærðfræði. Árið 2012 var þekking í fjármálalæsi könnuð í fyrsta sinn og aftur 2015. Um 53.000 nemendur frá 15 löndum tóku þátt í könnuninni. Þau lönd sem tóku þátt eru Ástralía, Bandaríki Norður-Ameríku, flæmski hluti Belgíu, Brasilía, Chile, Ítalía, Holland, Kanada, Kína, Litháen, Perú, Pólland, Rússland, Slóvakía og Spánn.

Helsta markmið rannsóknarinnar var að safna gögnum til að móta og framfylgja skilvirkri stefnu í fjármálalæsi í þátttökulöndum.

Í niðurstöðunum sem kynntar voru í dag kom fram að ekki væri mikill munur á árangri kynjanna og er hann minni en í lestrar- og stærðfræðihluta PISA-könnunarinnar. Einungis á Ítalíu standa drengir sig betur en stúlkur. Stúlkur standa sig betur í Ástralíu, Litháen, Slóvakíu og á Spáni. Þetta er ólíkt niðurstöðum rannsókna á fjármálalæsi fullorðinna þar sem munur milli kynja er yfirleitt mun meiri og konur skora lægra en karlar. 

Fjármálalæsi er samþætting nauðsynlegrar árvekni, þekkingar, færni, viðhorfa og hegðunar sem þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum, og sem tryggir fjárhagslega velferð einstaklinga. Um þriðjungur allra landa í heiminum, eða 65 talsins, hafa innleitt eða eru að innleiða landsáætlun í fjármálalæsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert