Miðlun matvælafyrirtækja mikilvæg

Tveir fyrirlesarar fundarins, Guðný Káradóttir og Guðný Steinsdóttir.
Tveir fyrirlesarar fundarins, Guðný Káradóttir og Guðný Steinsdóttir. Mynd/Íslandsstofa

Tengsl milli matar og miðla skipta miklu máli í dag. Kjöraðstæður eru nú fyrir íslensk matvælafyrirtæki til að stökkva á tæknibylgjuna og nýta sér miðlana. Framtíð þeirra liggi þar. Þetta kom fram á opnum fundi Íslandsstofu í gær.

Guðný Káradóttir hjá Íslandsstofu segir tilefni fundarins hafa verið að ýta undir miðlun íslenskra fyrirtækja. „Miðlar eru farvegur fólksins þegar kemur að upplýsingum og upplifunum,“ segir Guðný „Þetta er framtíðin. Þarna þurfum við að vera.“ Hún segir fólk sækja mikið í Ísland og íslenska vöru. „Íslensk fyrirtæki þurfa að nýta sér þetta. Þetta er ofsalega sterk bylgja og við þurfum að stökkva á hana.“

Á sjötta tug manna mættu á fundinn á Icelandair hótel Reykjavík Natura í gær. Fundarefnið var mikilvægi vef- og samfélagsmiðla í markaðsstarfi í matvælageiranum. Fyrirlestrarnir fjölluðu um leiðir til vitundavakningar og aukins áhuga á íslenskum matvælum og matarmenningu á erlendum vettvangi. Á samkomunni voru einnig skoðuð ýmis dæmi um góðan árangur íslenskrar netmarkaðssetningar.

Skyrið hefur slegið í gegn víða um heiminn.
Skyrið hefur slegið í gegn víða um heiminn. Mynd/mbl


Á fundinum kynnti Ben Hollom, framkvæmdarstjóri M2 Bespoke, greiningu á sýnileika íslenskra matvæla á netinu. Greiningin, sem Íslandsstofa lét gera, fjallar um hvernig íslensk matvæli og matarmenning birtast á netinu á þremur áherslumörkuðum. Þar kom meðal annars fram að íslenskur matur falli vel að alþjóðlegum matartískubylgjum. Nánar var greint frá greiningunni á mbl.is

Daði Guðjónsson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, fjallaði um samspil ferðaþjónustu og netmarkaðssetningar í tengslum við Inspired by Iceland-verkefnið. Daði fjallaði um óvenjulegar markaðsaðferðir ferðaþjónustunnar sem hafa sýnt fram á mikinn árangur. Útgangspunktur Daða var sameiningarkraftur ferðaþjónustunnar. Guðný segir matvælafyrirtæki geta tekið hann sér til fyrirmyndar. „Við getum aukið slagkraftinn ef allir sameinast með sömu skilaboðin,“ segir Guðný.

Íslenskur saltfiskur á La Boqueria-markaðnum í Barcelona.
Íslenskur saltfiskur á La Boqueria-markaðnum í Barcelona. Morgunblaðið/Ómar

Því næst fjallaði Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, um sýnileika íslenska skyrsins á netinu, en það hefur náð miklum árangri þar. Auk þess fjallaði Viggó Örn Jónsson, „creative director“ hjá Jónsson og Le‘Macks, um efnismiðlun og stefnu vörumerkisins „Icelandic Lamb“.  Viggó lagði mikla áherslu á sannar sögur beint frá bónda. Skáldskapur sé fyrirtækjum skaðlegur. 

Guðný Káradóttir hélt einnig fyrirlestur. Í honum greindi Guðný frá starfi sínu með saltfisk í Suður-Evrópu. Í því hefur megináhersla verið lögð á samfélagsmiðla með slagorðið „Smakkaðu og deildu“. Guðný sagði miðlun efnis einnig gera fyrirtæki vænlegri til erlends samstarfs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert