Sýknuð af greiðslu 30 ára láns

Guðrún heyrði ekki af láninu í 26 ár og bjóst …
Guðrún heyrði ekki af láninu í 26 ár og bjóst við að greiðslunum væri löngu lokið. mbl.is/Þórður Arnar

Guðrún Ó. Ax­els­dótt­ir var í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) um greiðslu 2,7 milljóna króna vegna 30 ára gamals námsláns barnsföður síns.

Að því er fram kom í viðtali við Guðrúnu á mbl.is árið 2014 var hún aðeins 19 ára þegar þá 33 ára kærasti hennar bað hana að skrifa undir lánið sem ábyrgðarmaður, en í 26 ár eða fram til ársins 2013 heyrði hún ekkert af láninu. Þá fékk hún hins vegar bréf frá LÍN þar sem kom fram að lánið væri komið í vanskil og í kjölfarið stefndi LÍN henni og krafði hana um greiðsluna. Sagði Guðrún í viðtalinu að hún myndi óljóst eft­ir því að hafa skrifað und­ir lána­samn­ing­inn við LÍN enda hafi hún verið ung og varla skilið þær skuld­bind­ing­ar sem lágu að baki. 

Gert að greiða yngra lánið fyrst

LÍN fullyrti að Guðrún væri bundin af ábyrgðarloforði sínu, en ábyrgð hennar skyldi standa í 40 ár frá því innheimta kröfu stefnanda hófst 1. mars 1996. Væru þau bæði bundin af lögum og greiðsluskylda samkvæmt ábyrgðarloforðum sem krafa LÍN byggði á stæði óhögguð meðan 40 ára gildistími ábyrgðarloforðanna væri enn virkur. Þessu mótmælti Guðrún. 

Á dag­inn kom að barns­faðir Guðrún­ar hafði fengið að taka annað náms­lán, á eft­ir því sem Guðrún var ábyrgðarmaður fyr­ir. Hon­um var gert að greiða yngra lánið fyrst af hálfu LÍN og af þeim sök­um greiddi hann aldrei inn á lánið sem Guðrún hafði verið í ábyrgð fyr­ir. Var sú ákvörðun tek­in án aðkomu eða vitn­eskju Guðrún­ar.

Mátti vera í góðri trú um að barnsfaðirinn stæði í skilum

Að því er fram kemur í dómnum er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár og telst frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Fyrir liggi að fyrsta afborgun kröfunnar hafi verið á gjalddaga 1. mars 1996 og verið greidd, en síðar hafi LÍN frestað innheimtu kröfunnar samkvæmt 18. gr. laga nr. 21/1992 þar til innheimta var hafin aftur. Fyrsti gjalddagi lánsins eftir þessa frestun innheimtu var 1. mars 2013 og féll lánið þegar í vanskil. LÍN gjaldfelldi hins vegar ekki lánið fyrr en 11. apríl 2014 og það þrátt fyrir að barnsfaðir Guðrúnar hafi hætt greiðslum 2009. 

Eins og fyrr segir er hvorki í 18. gr. laga nr. 21/1992, bæði fyrir og eftir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með 6. gr. laga nr. 140/2004, né fyrrgreindum lögskýringargögnum, tekin afstaða til þess hvernig fari um ábyrgð ábyrgðarmanns að námsláni við slíka frestun, þar á meðal hvaða áhrif frestunin hafi á upphaf fyrningarfrests gagnvart ábyrgðarmanni, og verður að skýra slíka óvissu stefndu í hag.“

Féllst dómurinn því á með Guðrúnu að miða bæri upphaf fyrningarfrests við 1. mars 1996 og að hún hafi mátt vera í góðri trú um að skuldari stæði í skilum með greiðslur af láninu. Því hafi krafa LÍN á hendur henni fallið niður fyrir fyrningu á árinu 2000 og frestun byggst í framhaldi á innheimtu á öðru láni sem hófst 1. mars 1997. 

Hér má sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert