Dúxinn fór beint í sauðburð

Dúxinn fékk 9,93 í meðaleinkunn og var að vonum sáttur …
Dúxinn fékk 9,93 í meðaleinkunn og var að vonum sáttur við árangurinn. Mynd/Tækniskólinn

Tækniskólinn útskrifaði í gær 464 nemendur af framhalds- og fagháskólastigi. Þá voru í fyrsta sinn nemendur útskrifaðir frá þremur brautum; hönnunar- og nýsköpunarbraut, kvikmyndatækni og frá Vefskólanum, en Vefskólinn er tveggja ára diplómanám sérsniðið að vefhönnun og forritun veflausna.

Dúx Tækniskólans var Benedikt Máni Finnsson, nemandi úr rafvirkjun, en hann var með 9,93 í meðaleinkunn.  Í tilkynningu frá Tækniskólanum segir að Benedikt hafi fagnaði áfanganum með fjölskyldu sinni í höfuðborginni á útskriftardaginn. Þau stoppuðu hins vegar stutt við, enda sauðburður að klárast heima fyrir. Fjölskyldan býr á Háafelli í Dalasýslu þar sem Benedikt starfar nú hjá Rarik. Hann segir óráðið með framhaldið, en segist ánægður í vinnu hjá Rarik, þar sem helstu verkefni eru vinna við jarðstrengi, línur og heimtaugar. 

Útskriftarathöfnin var í Hörpu, en með nútímatækni var henni miðlað bæði beint yfir alnetið á facebook Tækniskólans og á tjald í Eldborgarsal Hörpu. Þrjár kvikmyndavélar voru notaðar til koma hátíðinni á framfæri og voru það tæknimenn Hörpu ásamt kennara Tækniskólans og Stúdíó Sýrlands sem sáum um tæknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert